11. desember 2024

Samstarfssamningur ríkislögreglustjóra og UNICEF á Íslandi undirritaður

Innleiðing á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnvænnar nálgunar í störfum lögreglu.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, við undirritun samningsins.

Ríkislögreglustjóri og UNICEF á Íslandi undirrituðu í gær, 10. desember, samstarfssamning vegna innleiðingar á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnvænnar nálgunar í störfum lögreglu.

Markmið samningsins er að halda utan um samstarf embættis ríkislögreglustjóra og UNICEF á Íslandi um innleiðingu sáttmálans sem felur í sér viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar sem eigi sér sjálfstæð réttindi.

Með samstarfssamningnum skuldbindur ríkislögreglustjóri sig til að leggja áherslu á að í störfum lögreglu séu réttindi barna virt og velferð þeirra höfð að leiðarljósi. Í því felst m.a. að gert verði stöðumat á öllum snertiflötum lögreglunnar við börn og verklagsreglur bættar um nálgun lögreglu í málum þar sem börn koma við sögu. Sömuleiðis verður gerð áætlun um hvernig tryggja megi réttindi barna í viðbragðsáætlunum Almannavarna og þróað fræðsluefni um réttindi barna með Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar. UNICEF á Íslandi styður við framkvæmdina með fræðslu um réttindi barna og innleiðingu Barnasáttmálans. Gildir samningurinn til tveggja ára.

Hinn 10. desember ár hvert er alþjóðlegi mannréttindadagurinn haldinn í tilefni þess að árið 1948 var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt. Þá lýkur jafnframt 16 daga átakinu gegn kynbundnu ofbeldi. Börn voru 45 prósent brotaþola í kynferðisbrotamálum tilkynntum lögreglu árið 2023.  Þá voru börn 11 prósent brotaþola í heimilisofbeldismálum árið 2023.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn