15. janúar 2024

Sameiginleg yfirlýsing stofnana Sameinuðu þjóðanna vegna Gaza

Tryggja þarf öruggt aðgengi til að koma í veg fyrir hungursneyð og sjúkdóma á Gaza

Yfirvofandi hungursneyð og útbreiðsla banvænna sjúkdóma kallar á grundvallarbreytingu á aðgengi og flæði mannúðaraðstoðar til Gaza. Þetta er meðal þess sem fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu yfirmanna UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í dag. Stjórnendur stofnananna segja að til að hægt sé að koma hjálpargögnum til Gaza verði að:

  • Opna nýjar inngönguleiðir til Gaza.
  • Hleypa fleiri flutningabílum í gegnum landamæraeftirlit á hverjum degi
  • Færri takmarkanir á ferðir starfsfólks mannúðarsamtaka
  • Tryggja öryggi þeirra sem leita sér aðstoð og þeirra sem eru að veita hana.

 Hvert mannsbarn á Gaza reiðir sig nú á mannúðaraðstoð til að lifa af nú þegar ekki er mögulegt að framleiða eða flytja inn matvæli líkt og áður. En mannúðaraðstoð ein og sér getur ekki mætt öllum grunnþörfum íbúa Gaza. Sameinuðu þjóðirnar, alþjóðleg hjálparsamtök og mannúðarstofnanir hafa hingað til getað flutt hjálpargögn og mannúðaraðstoð Gaza við gríðarerfiðar og hættulegar aðstæður en sú aðstoð hefur verið takmörkunum háð og meira þarf til svo koma megi í veg fyrir skelfilegar afleiðingar hungurs, vannæringar og sjúkdóma. Skortur á mat, hreinu vatni og heilbrigðisaðstoð hefur verið sérstaklega alvarlegur í norðurhluta Gaza.

Lokanir og margþætt eftirlit

Aðgerðir hafa verið verulega takmarkaðar af lokun allra landamærastöðva nema tveggja í suðri auk þess sem flutningabílar þurfa að sæta margþættu eftirliti og skoðun við landamæri Gaza. Og þegar inn er komið hefur reynst nær ómögulegt að koma upp föstum þjónustustöðvum vegna sprengjuárása og síbreytileika vígstöðva sem setur líf almennra borgara og starfsfólks stofnana í hættu. 

Cindy McCain, framkvæmdastjóri WFP, Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, og Tedros Adhanom Ghebreyesus, aðalframkvæmdastjóri WHO, leggja í yfirlýsingu sinni áherslu á að þessum takmörkunum verði aflétt sem og að hefðbundnir viðskiptaflutningar verði heimilaðir á ný. Að auki ítreka þau fyrri áköll stofnananna um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum til að tryggja að lífsnauðsynlegar og samstilltar mannúðaraðgerðir þvert á stofnanir og samtök geti hafist þegar í stað. 

Cindy McCain, framkvæmdastjóri Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (WFP):

„Fólk er í lífshættu vegna hungurs aðeins örfáum kílómetrum frá flutningabílum sem eru fullir af matvælum og aðstoð. Hver klukkustund skiptir máli. Við getum haldið hungursneyð í skefjum en aðeins ef við fáum að afhenda nægilegt magn hjálpargagna og tryggjum öruggt aðgengi allra.“   

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna:

„Börn sem eru í hættu á að deyja vegna vannæringar og sjúkdóma þurfa nauðsynlega á læknisaðstoð, hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu að halda en aðstæður á vettvangi torvelda örugga afhendingu þessarar lífsnauðsynlegu þjónustu í því magni sem þörf er á. Margt af því byggingarefni og varahlutum sem við þurfum til að gera við og auka vatnsframboð á svæðinu fær ekki  að komast til Gaza. Líf barna og fjölskyldna þeirra hangir á bláþræði og hver mínúta skiptir máli.“ 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO):

„Íbúar Gaza þjást vegna skorts á matvælum, vatni, lyfjum og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Ef til hungursneyðar kemur verður skelfilegt ástand enn verra. Sjúklingar eru líklegri til að láta lífið vegna hungurs og sveltandi fólk er viðkvæmara fyrir sjúkdómum. Við þurfum óhindrað öruggt aðgengi fyrir mannúðaraðstoð og tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum til að koma í veg fyrir frekari dauðsföll og þjáningu.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn