04. desember 2020

Stærsta neyðarákall UNICEF í sögunni

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur nú kynnt alþjóðlegt neyðarákall sitt fyrir árið 2021 og er það stærsta neyðarákall samtakanna til þessa. Gert er ráð fyrir að veita 300 milljón manns nauðsynlega þjónustu á næsta ári, þar af 190 milljónum barna.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur nú kynnt alþjóðlegt neyðarákall sitt fyrir árið 2021 og er það stærsta neyðarákall samtakanna til þessa. Gert er ráð fyrir að veita 300 milljón manns nauðsynlega þjónustu á næsta ári, þar af 190 milljónum barna. Til þess að ná því markmiði er gert ráð fyrir að þurfi fjárstuðning upp á 6,4 milljarða bandaríkjadala árið 2021 sem er 35% aukning frá árinu 2020. Þar spila auknar þarfir á heimsvísu vegna COVID-19 stórt hlutverk og einnig áhrif langvarandi stríðs, neyð vegna átaka sem hafa brotist út á árinu og auknar náttúruhamfarir.

Árið 2020 hefur verið gífurlega erfitt fyrir börn og nú þegar árið 2021 er handan við hornið er ljóst að auka þarf neyðaraðgerðir UNICEF um allan heim. Skýrslan, Humanitarian Action for Children 2021 útlistar ákall UNICEF um að veita börnum á stríðs- og hamfarasvæðum lífsnauðsynlega hjálp, þar á meðal aðgang að hreinu vatni, hreinlætisvörum, næringu, menntun og heilbrigðisþjónustu auk þess sem UNICEF heldur áfram að bregðast við áhrifum kórónaveirunnar. “Þegar hræðilegur heimsfaraldur blandast saman við átök, loftslagsbreytingar, flótta og aðrar hörmungar þá eru afleiðingarnar fyrir börn skelfilegar,” segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.

Hamfarahlýnun, vannæring og langvarandi átök

Kórónuveirufaraldurinn hefur raskað lífi barna og ungmenna um allan heim og gert viðkæma stöðu margra barna enn erfiðari. Reglubundnar bólusetningar barna hafa tafist í yfir 60 löndum, menntun yfir 250 milljóna barna er í hættu vegna skólalokana og vannæring meðal barna er að aukast. Efnahagsleg áhrif veirunnar gerir fjölskyldum erfiðara að ná endum saman og eykur hættuna á heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. Á saman tíma hefur neyðarástand skapast víða, meðal annars vegna átaka í Tigray héraði Eþíópíu og Cabo Delgado í Mósambík. Langvarandi neyðarástand í meðal annars Afganistan, Bangladess, Líbíu, Úkraínu, Venesúela, Burkína Fasó, Suður-Súdan, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Sýrlandi og Jemen heldur áfram að stofna lífi og velferð barna í hættu.

Fjöldi hamfara sem tengjast loftslagsbreytingum hefur þrefaldast á síðastliðnum 30 árum og ógnar fæðuöryggi, eykur vatnsskort og hefur hrakið fólk frá heimilum sínum. UNICEF áætlar að um 36 milljón börn hafi þurft að flýja heimili sín vegna átaka, ofbeldis eða náttúruhamfara sem er hærri tala en nokkru sinni fyrr.

Heimsforeldrar hjálpa börnum í neyð

Þrátt fyrir stórar áskoranir þá hefur mikill árangur náðst í að veita börnum um allan heim lífsnauðsynlega aðstoð á árinu. UNICEF vinnur í nánu samstarfi við innlenda viðbragðsaðila, frjáls félagasamtök og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna á hverju neyðarsvæði. Árið 2020 hafa UNICEF og samstarfsaðilar meðal annars náð að:

  • Meðhöndla 1,5 milljónir barna við alvarlegri bráðavannæringu (SAM) og veita milljónum annarra barna sem þjást vegna vannæringar lífsnauðsynlega hjálp;
  • Bólusetja 3,4 milljónir barna gegn mislingum;
  • Veita 3 milljörðum fræðslu vegna COVID-19;
  • Útvega hlífðarbúnað fyrir 1,8 milljarðs heilbrigðisstarfsfólks;
  • Útvegað Covid-19 próf í 56 löndum.

UNICEF reiðir sig eingöngu á frjáls framlög og þessi árangur er mögulegur vegna stuðnings ríkisstjórna, fyrirtækja og almennings. Á meðan börn eru í neyð höldum við ótrauð áfram og markmiðið er að ná til enn fleiri barna á nýju ári. Með neyðaraðgerðum sínum fyrir árið 2021 gerir UNICEF ráð fyrir að ná til 300 milljón manns, meðal annars með aukinni þjónustu við fatlaðar konur og börn, bólusetningar gegn mislingum og öðrum lífshættulegum sjúkdómum, meðferð við vannæringu, aðgengi að hreinu drykkjarvatni, hreinlætisaðstöðu og geðheilbrigðisþjónustu, koma í veg fyrir og bregðast við kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum og tryggja börnum aðgang að menntun svo nokkuð sé nefnt.

Auk neyðaraðgerða á átaka- og hamfarasvæðum mun UNICEF gegna lykilhlutverki í að tryggja lág- og millitekjuríkjum jafnan aðgang að bóluefni gegn kórónaveirunni. UNICEF hefur í áratugi verið leiðandi í bólusetningum og er stærsti einstaki kaupandi bóluefna í heiminum. Nú þegar hefur UNICEF komið upp lager af sprautum og viðræður eru í fullum gangi við flutningsaðila, meðal annars stærstu flugfélög heims, um dreifingu á nærri tveimur milljörðum skammta af bóluefni til yfir 90 lág- og millitekjuríkja á næsta ári.

Þá má geta þess að Heimsforeldrar taka virkan þátt í baráttu UNICEF um allan heim og leggja sitt að mörkum svo UNICEF nái til þeirra barna sem þurfa á hjálp að halda. Á Íslandi eru yfir 27.000 heimsforeldrar sem hjálpa UNICEF með mánaðarlegum framlögum.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn