24. maí 2022

Report Card 17: Ofneysla í efnamestu ríkjum heims, þar á meðal á Íslandi, er að eyðileggja umhverfi barna um allan heim

Ísland í 7. sæti á heildarlista OECD og Evrópusambandsríkja.

Skýrsla UNICEF sýnir meðal annars hvernig efnameiri lönd heimsins hafa skaðleg áhrif á umhverfi barna um allan heim vegna losunar koltvísýrings, rafræns úrgangs og neyslu. Ísland er þar í 32. sæti af 39 ríki OECD og Evrópusambandsins.

Árleg skýrsla UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um stöðu barna í efnameiri ríkjum heimsins, Report Card 17: Places and Spaces, kom út í dag. Í skýrslunni í ár eru áhrif umhverfisþátta á borð við loft- og vatnsmengun, blýeitrun, losun úrgangs, aðgengi að grænum svæðum, upphituðu húsnæði og áhrif raka og myglu á velferð barna skoðuð og löndum raðað eftir því hversu vel þeim vegnar að skapa heilsusamlegt umhverfi fyrir börn innan og utan sinna landamæra. Skýrslan er unnin af rannsóknarmiðstöð UNICEF á Ítalíu – Innocenti.  

Í skýrslunni eru 39 ríki Evrópusambandsins og OECD raðað niður eftir því hversu vel þeim vegnar að veita börnum heimsins heilsusamlegt umhverfi. Finnland, Ísland og Noregur mælast í efsta þriðjungi þeirra ríkja sem veita börnum heima fyrir hvað heilbrigðasta umhverfið en eru í neðsta þriðjungi yfir þau lönd sem hafa skaðleg áhrif á heiminn í heild vegna losunar koltvísýrings, rafræns úrgangs og neyslu.

Best í heimi en ekki best fyrir heiminn

Í skýrslunni er stuðst við þrenns konar mælikvarða: heimur barnsins, heimurinn í kringum barnið og heimurinn í heild sinni. Þegar heimurinn í kringum barnið (m.a aðgengi að grænum svæðum, umferðaröryggi og heimilisrými) er skoðaður er Ísland í fyrsta sæti og í þriðja sæti yfir mælikvarðana sem falla undir heim barnsins (umhverfisþættir á borð við loft- og vatnsmengun og eiturefni). Það sem dregur Ísland niður á heildar listanum eru áhrif óhóflegrar neyslu á hnattrænt umhverfi, en þar er Ísland í 32. sæti, og endar því í 7. sæti af 39 ríkjum þegar allir þrír mælikvarðarnir eru settir saman.  

Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að ríkustu lönd heims, þar á meðal Finnland, Ísland, Holland og Noregur, bjóði börnum innan sinna landamæra uppá heilsusamlegt umhverfi en eru á sama tíma að stofna nútíð og framtíð barna á heimsvísu í hættu með óhóflegri neyslu. Í neðstu sætum listans eru lönd á borð við Ástralíu, Belgíu, Kanada og Bandaríkin, en þau lönd hafa víðtæk áhrif á alþjóðlegt umhverfi með losun koltvísýrings, rafrænum úrgangi og heildarnotkun auðlinda á hvern íbúa og mælast einnig lágt í að skapa heilsusamlegt umhverfi fyrir börn innan sinna landamæra. Aftur á móti hafa efnaminnstu ríki OECD og Evrópusambandsins í Evrópu og rómönsku Ameríku mun minni áhrif á heiminn í heild.  

„Það er ekki nóg með að meirihluti efnameiri ríkja ná ekki að veita börnum innan sinna landamæra heilsusamlegt umhverfi heldur stuðla þau einnig að eyðileggingu á umhverfi barna annars staðar í heiminum,“ segir Gunilla Olsson, forstöðumaður rannsóknarstofu UNICEF – Innocenti. „Í sumum tilfellum erum við að sjá lönd sem bjóða upp á tiltölulega heilbrigt umhverfi fyrir börn heima fyrir en eru á sama tíma meðal þeirra landa sem menga mest og hafa skaðleg áhrif á umhverfi barna erlendis.“  

 

Hagsmunir barna séu hluti af allri ákvarðanatöku 

Í skýrslunni er tekið fram að ef allir í heiminum neyttu auðlinda á þeim hraða sem fólk gerir í OECD og Evrópusambandslöndunum, þyrfti jafnvirði 3,3 pláneta til að halda í við núverandi neyslustig. Niðurstöður skýrslunnar undirstrika ákall sem UNICEF sendi frá sér í fyrra þegar samtökin kynntu í fyrsta sinn sérstakan barnamiðaðan loftslagsáhættustuðul (e. Child-focused climate risk index). Þar kom fram að nánast hvert einasta barn í heiminum verður nú fyrir að minnsta kosti einu áfalli af völdum loftslagsbreytinga – þ.á.m er loftmengun, hitabylgjur, vatnsskortur, gróðureldar, flóð og ofsaveður. Um það bil 1 milljarður barna - næstum helmingur allra barna í heiminum - er mjög berskjaldaður og ógnar það heilsu þeirra, menntun og öryggi.  

Með skýrslunni vill UNICEF senda skýr skilaboð til ríkja og fyrirtækja heimsins að grípa til róttækra aðgerða og vernda börn gegn skaðlegum áhrifum umhverfisins: 

  • Stjórnvöld á öllum stjórnsýslustigum þurfa að leiða umbætur á umhverfi barna með því að draga úr losun úrgangs, loft- og vatnsmengun og með því að tryggja viðunandi húsnæði og íbúðahverfi fyrir börn að alast upp í. 
  • Bæta þarf umhverfið fyrir viðkvæmustu börnin. Börn í efnaminni fjölskyldum eru í meiri hættu á að verða fyrir skaðlegum áhrifum af völdum umhverfisins en börn í efnameiri fjölskyldum, til dæmis að búa mjög þröngt, í nábýli við eiturefni og í húsnæði sem erfitt er að hita upp svo dæmi séu tekin. Þetta festir í sessi og eykur núverandi ójöfnuð í heiminum. 
  • Tryggja þarf að stefnur í umhverfismálum séu barnmiðaðar og að hagsmunir barna séu hluti af allri ákvarðanatöku.  
  • Börn eiga að vera þátttakendur í stefnumótun því það eru þau sem munu standa frammi fyrir umhverfisvandamálum nútímans. Hlusta þarf á sjónarmið barna og taka tillit til þeirra þegar verið er að móta stefnu sem mun hafa áhrif á komandi kynslóðir. 
  • Ríkisstjórnir og fyrirtæki þurfa að grípa til árangursríkra aðgerða núna til að standa við skuldbindingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Aðlögun samfélaga vegna áhrifa loftslagsbreytinga þarf að vera í forgrunni hjá ríkisstjórnum og alþjóðasamfélaginu.  

Hægt er að rýna í niðurstöður skýrslunnar hér

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn