01. apríl 2022

Prumpulagið fær yfirhalningu fyrir gott málefni

Stjörnulið tónlistarfólks flytur endurgerð Kanarí á hinu klassíska barnalagi. Frumflutt á Heimsins mikilvægasta kvöldi á morgun, 2. apríl á RÚV

Söngkonan Glowie.

Glowie, Jón Jónsson, Króli, Reykjavíkurdætur, Bassi Maraj, Gugusar, JFDR og Vigdís í Flott flytja splunkunýja og skemmtilega útgáfu af Prumpulaginu sem Dr. Gunni gerði ódauðlegt á tíunda áratug síðustu aldar. Lagið og myndbandið við það verða frumflutt í söfnunar– og skemmtiþætti UNICEF á Íslandi sem ber yfirskriftana „Heimsins mikilvægasta kvöld“ og verður í beinni útsendingu á RÚV á morgun, laugardaginn 2. apríl klukkan 19:45.

Grínstjórar þáttarins eru grínhópurinn Kanarí sem framleiddi hið nýja Prumpulag og fengu þetta stjörnulið söngvara og tónlistarmanna til liðs við sig til að flytja lagið fyrir gott málefni.  
Prumpulagið, sem fagnar einmitt 25 ára afmæli sínu á árinu, er fyrir löngu orðið klassík og sívinsælt meðal barna. Lagið kom fyrst út á plötunni Abbababb árið 1997 við lag Dr. Gunna og texta Jóns Gnarr.   

Líkt og forverinn þá er nýja útgáfan bráðfyndin og mun án nokkurs vafa slá í gegn hjá ungu kynslóðinni. Það er okkar spádómur að nýja útgáfan muni fylgja þjóðinni önnur 25 ár og hljóma í leik- og grunnskólum landsins um ókomna tíð.  

Heimsins mikilvægasta kvöld er þáttur sem enginn má missa af. UNICEF á Íslandi þakkar öllum þeim fjölmörgu sem gáfu vinnu sína og lögðu samtökunum lið til að láta hann verða að veruleika. Styrktaraðilar átaksins eru Vodafone, Lindex, og Kvika banki. Einnig fær UNICEF á Íslandi styrk frá Utanríkisráðuneytinu til að halda úti öflugu kynningar- og fræðslustarfi sem er hluti af þættinum. Auglýsingastofan TVIST vann markaðsátak herferðarinnar og útlit þáttarins.  

Komdu í hóp heimsins bestu foreldra og horfðu á Heimsins mikilvægasta kvöld, laugardaginn 2. apríl klukkan 19:45 á RÚV. 

Fleiri
fréttir

21. febrúar 2025

Þrjú ár af stríði í Úkraínu: Eitt af hverjum fimm börnum misst ættingja eða vin
Lesa meira

20. febrúar 2025

Bólusetning barna á Gaza heldur áfram
Lesa meira

17. febrúar 2025

Skólaganga hundruð þúsunda barna í hættu
Lesa meira
Fara í fréttasafn