21. október 2022

Priyanka heimsótti Kenía: „Börn eru að deyja úr hungri“

Priyanka Chopra Jonas ræðir við mæðginin Apolo Lokai og móður hans Mary Apurot á heimili þeirra. Þau voru þá nýkomin úr skimun fyrir vannæringu og Apolo fengið næringarríkt jarðhnetumauk sem hann gæðir sér á.

„Á Afríkuhorninu eru börn að deyja úr hungri og milljónir til viðbótar á barmi hungursneyðar. Flestar fjölskyldurnar sem ég hitti þreyja þorrann á undir því sem nemur 1 Bandaríkjadal á dag og sumar höfðu ekki borðað neitt í þrjá daga.“ Þetta segir Priyanka Chopra Jones, Góðgerðarsendiherra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem heimsótti nýverið norðurhluta Kenía þar sem hún sá með eigin augum neyð fólks í einu þeirra ríkja þar sem hungursneyð vofir yfir. Ástæðan eru hamfaraþurrkar sem eru þeir verstu í áratugi.

„Svona líta afleiðingar loftslagsbreytinga út hér,“ segir Priyanka. 

Í tveggja daga heimsókn sinni ferðaðist Priyanka til Turkana-sýslu, sem er meðal þeirra fimmtán svæða í Kenía sem verst hafa orðið úti í þurrkatíðinni undanfarin misseri. Þar þjáist 1 af hverjum 3 börnum af bráðavannæringu. Nær 900 þúsund börn undir fimm ára aldri í þessum sýslum þurfa á næringaraðstoð að halda við rýrnun, alvarlegasta formi vannæringar. 

Síðustu fjögur rigningatímabil brugðist

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur þrotlaust að því að koma næringarríku jarðhnetumauki og öðrum næringarmeðferðum til barna á svæðinu- líkt og um allan heim. Allar slíkar aðgerðir og þjónusta hafa verið skalaðar upp til að bregðast við ástandinu. Sérstaklega til að ná til barna á þeim svæðum, sem erfiðast er að ná til. 

Í Kenía hafa síðustu fjögur rigningatímabil brugðist með þeim afleiðingum að 1,4 milljónir barna búa nú við skert aðgengi að næringarríku fæði, öruggu og hreinu drykkjarvatni, heilbrigðisþjónustu, menntun og vernd gegn ofbeldi. Spár gera ekki ráð fyrir öðru en að næstkomandi rigningatímabil verði einnig langt undir væntingum, sem aftur mun gera illt verra. 

„UNICEF hefur unnið að því með stjórnvöldum og samstarfsaðilum að lágmarka skaðann af þessari hungurkrísu og gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga börnum frá kvalafullum dauðdaga,“ segir Jean Lokenga, starfandi fulltrúi UNICEF í Kenía. „Ef næsta rigningatímabil bregst eða fjármagn skortir til að útvega næringarfæði, verður þessi skelfilega staða enn verri. Þörfin hér í Kenía og heimshlutanum er gríðarleg. Við erum þakklát Priyönku fyrir að hjálpa okkur að vekja athygli á neyðarástandinu og við að tryggja að öll börn fái aðgengi að lífsbjargandi aðstoð.“

 

Á barnaspítala í Lodwar, þangað sem börnin sem verst eru haldin eru lögð inn til meðferðar við vannæringu hitti ‚Priyanka hinn tveggja ára gamla Keeza. Hann var lagður inn við alvarlegri vannæringu og vegna verulega skerts ónæmiskerfis vegna ástands hans réð líkami hans ekki við að berjast gegn margvíslegum sjúkdómum. Hún fékk í kjölfarið malaríu, lungnabólgu og bjúg. Ef ekki hefði verið fyrir sjálfboðaliða sem skima fyrir og hafa uppi á börnum í næringarneyð, í þessu tilfelli í Lodwar, hefði Keeza líklega ekki komist undir læknishendur í tæka tíð.    

„Staðreyndin er sú að í Kenía eru svo mörg börn eins og Keeza sem ekki eru að fá þá meðferð sem þau þurfa og það gerir þau berskjölduð fyrir margvíslegum öðrum sjúkdómum. Það er skelfilegt til þess að hugsa en það er hægt að koma í veg fyrir þetta. Og nema við bregðumst við núna munu milljónir barna vera við dauðans dyr,“ segir Priyanka. 

UNICEF á Íslandi hefur undanfarið staðið fyrir neyðarsöfnun vegna þessa skelfingarástands barna á Afríkuhorninu. Þú getur lagt þitt af mörkum og svarað ákalli UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, til stjórnvalda, einkageirans og einstaklinga um fjárhagsaðstoð til lífsbjargandi verkefna.

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 (2.900 kr.)

Hægt er að leggja frjáls framlög inn á reikning 701-26-102015 og kt. 481203-2950.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn