„Of oft eru börn í Palestínu fórnarlömb þessa linnulausa átaka. Nánast öll þau 2,4 milljónir barna sem búa á Vesturbakkanum, þar með talið í Austur-Jerúsalem, og á Gaza-svæðinu verða fyrir áhrifum með einhverjum hætti. Sum börn glíma við mikinn ótta og kvíða, á meðan önnur verða fyrir raunverulegum afleiðingum skorts á mannúðaraðstoð og vernd, nauðungarflutninga, eyðileggingar eða dauða. Öll börn verða að njóta verndar.“ Þannig hefst yfirlýsing Edouard Beigbeder, svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem nýlokið hefur fjögurra daga ferð um Vesturbakkann og Gaza. Hann segir ástandið þar verulegt áhyggjuefni.
„Ef neyðaraðstoð berst ekki inn á Gaza þýðir það að 1 milljón barna búa án helstu nauðsynja sem þau þurfa til að lifa af.“
Öndunarvélar fyrir nýbura bíða utan landamæra
„Rétt fyrir utan Gaza-svæðið bíða yfir 180.000 skammtar af nauðsynlegum bóluefnum fyrir börn, nóg til að bólusetja og vernda 60.000 börn undir tveggja ára aldri að fullu, auk 20 lífsbjargandi öndunarvéla fyrir nýburagjörgæsludeildir. Þó UNICEF hafi tekist að koma 30 CPAP öndunarvélum á leiðarenda— sem veita nýburum með bráða öndunarbilun (ARDS) og fyrirburum mikla hjálp —eru öndunarvélarnar lífsnauðsynlegar fyrir ungbörn sem þurfa meiri öndunaraðstoð.“
„Því miður eru nú um 4.000 nýburar sem ekki fá lífsbjargandi umönnun vegna tjóns sem orðið hefur á heilbrigðisstofnunum Gaza. Á hverjum degi án þessara öndunarvéla glatast líf, sérstaklega meðal viðkvæmra fyrirbura í norðurhluta Gaza.“
„UNICEF beitir sér fyrir því að þessar lífsbjargandi sjúkragögn og birgðir fyrir börn fái að komast inn. Það er engin ástæða fyrir því að þær fái það ekki.“
Verðum að koma birgðum til barna
„Í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög ber að tryggja að grundvallarþarfir almennra borgara séu uppfylltar og það krefst þess að aðgangur að lífsnauðsynlegri aðstoð sé tryggður, hvort sem vopnahlé er í gildi eða ekki. Frekari tafir á neyðaraðstoð gætu tafið enn frekar eða stöðvað nauðsynlega þjónustu og snúið við þeim framförum sem náðst hafa fyrir börn í þessu vopnahléi.“
„Við þurfum að koma þessum birgðum til barna, þar á meðal nýbura, áður en það verður um seinan. Og við verðum að halda grunnþjónustu gangandi. Ég heimsótti vatnshreinsistöð UNICEF í Khan Younis á Gaza, eina stöðin sem fékk rafmagn frá nóvember 2024 en hefur nú verið aftengd. Hún starfar nú aðeins á 13% af afkastagetu sinni og skilur hundruð þúsunda íbúa eftir án hreins vatns og hreinlætisþjónustu.“
„Á Vesturbakkanum, þar á meðal í Austur-Jerúsalem, hafa meira en 200 palestínsk og 3 ísraelsk börn verið drepin frá október 2023 – sem er hæsta tala sem skráð hefur verið á svæðinu síðustu tvo áratugi.“
Eru ekki að biðja um ölmusu – aðeins virðingu fyrir réttindum sínum
„Í Jenin og norðurhluta Vesturbakkans hafa yfir 35.000 einstaklingar neyðst til að yfirgefa heimili sín og eigur og leita skjóls annars staðar. Skólaganga hefur raskast fyrir um 12.000 börn vegna nýlegra nauðungarflutninga. Börnin á Vesturbakkanum, þar á meðal í Austur-Jerúsalem, verða oft fyrir vegatálmum og skorti á nauðsynlegum skólavörum.“
„Í Jenin hitti ég margar mæður og börn sem hafast við í neyðarskýlum. Þau sögðu mér frá því hversu mikið þau þjást af ofbeldinu, óttanum og truflunum á skólagöngu. Þau sögðu mér að þau væru ekki að biðja um ölmusu, aðeins um virðingu fyrir réttindum sínum og möguleika á að snúa aftur heim.“
„UNICEF heldur áfram að gera allt sem við getum til að vernda og styðja börn í Palestínu. Við erum að gera við vatnskerfi, veita sálræna aðstoð, koma á fót námsmiðstöðvum og stöðugt að þrýsta á þá sem fara með ákvarðanatökuvald til að tryggja aðgang og að ofbeldið hætti. En þetta eitt og sér er ekki nóg.“
Áfram í átt að varanlegum frið
„Börn mega ekki vera drepin, særð eða hrakin frá heimilum sínum, og allir aðilar verða að virða skyldur sínar samkvæmt alþjóðalögum. Þörfum almennra borgara fyrir öryggi og grunnþjónustu verður að mæta og mannúðaraðstoð verður að fá að berast hratt og í nægilegu magni. Öllum gíslum verður að sleppa án tafar og vopnahlé í Gaza-svæðinu verður að halda áfram og styðja við varanlega lausn á átökunum.“
„Tugþúsundir barna hafa verið drepin og særð. Við megum ekki snúa aftur í ástandið sem lætur þessar tölur hækka enn frekar.“