29. október 2024

„Ólýsanlegur hryllingur“ fyrir börn í Súdan

Yfirlýsing frá framkvæmdastjóra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eftir voðaverk síðustu daga í Súdan.

„Alþjóðasamfélagið getur ekki staðið hjá og skilað auðu meðan börnin í Súdan eru að upplifa ólýsanlegan hrylling á degi hverjum. Tími aðgerða er núna til að verja framtíð þeirra og réttindi til öryggis og friðar,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu eftir að greint var frá því að 10 börn hefðu á síðustu dögum látið lífið í árásum í Al Jazirah-héraði Súdan.

Russell lýsir yfir þungum áhyggjum af stigvaxandi ofbeldisverkum gegn börnum og fjölskyldum í héraðinu, óhugnanlegum tilkynningum um fjöldamorð, kynferðisbrotum gegn konum og börnum og eyðileggingu heimila.

„Bara síðastliðna viku hafa 124 einstaklingar verið drepnir í Al Jazirah– þar á meðal tíu börn allt niður í tíu ára gömul, og á fimmta tug barna særst. Tilkynningar hafa borist um að stúlkum, allt niður í þrettán ára gömlum, hafi verið nauðgað og þær beittar kynferðisofbeldi og börn tekin í gíslingu. 45 þúsund einstaklingar í Taboul og nærliggjandi þorpum voru hraktir brott af heimilum sínum á einni viku,“ segir Russell um voðaverk liðinna daga í Súdan.

Hún segir þessi ofbeldisverk vera hluta af umfangsmiklum mannúðarhamförum af mannavöldum í Súdan sem þegar hafi kostað þúsundir barna lífið og hrakið 11 milljónir íbúa á flótta í landinu. Hvergi í heiminum eru fleiri börn og einstaklingar á flótta og vergangi en í Súdan.

„UNICEF kallar eftir því að tafarlausu vopnahléi og frið frá þessum skelfilegu ofbeldisverkum. Stríðandi fylkingar verða að hætta að beina árásum sínum að almennum borgurum og brjóta gegn börnum. Þeim ber einnig að sleppa öllum þeim börnum sem þeir hafa í haldi. Við köllum eftir því að alþjóðleg mannúðarlög verði virt til að vernda almenna borgara, nauðsynlega innviði og tryggja öruggt aðgengi fyrir starfsfólk mannúðarastofnana. Hindranir sem nú eru til staðar ógna öryggi og torvelda alla afhendingu lífsnauðsynlegra hjálpargagna og aðstoðar fyrir börn og fjölskyldur sem á þurfa að halda.“

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan er enn í gangi og þú getur stutt við réttindi barna hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn