15. maí 2024

Óásættanlegt að litið sé á saklaus börn sem fórnarkostnað í stríði

Yfirlýsing frá svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku um árásir í Rafah og norðurhluta Gaza.

Börn sitja um borð í pallbíl að flýja Rafah á dögunum. © UNICEF/El Baba

Við getum ekki sætt okkur við að heimurinn horfi á í beinni og líti á saklaus börn sem ásættanlegan fórnarkostnað í átökum sem þau eiga engan þátt í. Þetta segir Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og N-Afríku í yfirlýsingu vegna aukinna árása í í Rafah og norðurhluta Gaza undanfarna sólarhringa.

Khodr segir þessa stigmögnun hafa aukið á þjáningar hundruð þúsunda barna sem lifað hafa ólýsanlega martröð síðustu 218 daga.

„Í síðustu viku hófust hernaðaraðgerðir sem óttast hafði verið í Rafah þar sem 448 þúsund manns neyddust á ný til að flýja út í óöryggið til svæða eins og Al-Mawasi og Deir al Balah. Á sama tíma hafa loftárásir og hernaður á jörðu breiðst út í norðurhluta Gaza og skilið eftir sig slóð eyðileggingar. Meðal annars í Jabaliya flóttamannabúðunum og Beit Lahia. Minnst 64 þúsund manns voru neydd til að flýja.“

Eina líflína íbúa í hættu

„Óbreyttir borgarar, sem fyrir voru úrvinda, vannærðir og í áfalli, standa nú frammi fyrir dauða, meiðslum og flótta í rústum samfélaga sinna. Mannúðaraðstoð, sem orðin var eina líflína þeirra, er nú ógnað.“

Khodr segir að eftir nýjust vendingar hafi UNICEF lent í enn frekari áskorunum með flutning neyðarvista og aðstoðar til Gaza og eldsneytisskortur sé sömuleiðis alvarlegt vandamál.

„Helstu sjúkrahús í norðri innan rýmingarsvæða eru í skotlínunni sem raskar verulega dreifingu og flutningi á  nauðsynlegum sjúkragögnum og ógnar ótal lífum. Nú hefur verið lokað á aðstoð til allra þeirra sem standa frammi fyrir yfirvofandi hungursneyð.“

Khodr segir að opna verði landamæraleiðir tafarlaust og hleypa mannúðarstofnunum að flytja og úthluta nauðsynlegum hjálpargögnum sem börn á Gaza þurfa á að halda.

Vopnin þagni og réttindi barna verði virt

„Að hunsa þær kröfur mun leiða til enn meiri hamfara en við höfum þegar horft upp á. Það er útkoma sem við verðum að gera kröfu um að verði ekki að veruleika.“

„Eftir rúmlega sjö mánuði af árásum, dauða tugþúsunda og ótal kröfur um vopnahlé þá þrífst ofbeldið enn. Það er nauðsynlegt að vopnin þagni og réttindi barna séu virt. Börn á Gaza hafa upplifað ólýsanlegan hrylling og þau verðskulda tafarlaust vopnahlé og tækifæri til friðsællar framtíðar.“

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi er í fullum gangi. Hringdu núna í 907-3014 til að styrkja um 3000 krónur.
Nánar um styrktarleiðir hér

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn