08. mars 2023

Vítahringur vannæringar

Ný skýrsla UNICEF sýnir að vannæring meðal barnshafandi kvenna og kvenna með börn á brjósti hefur aukist umtalsvert á síðustu árum

Ný skýrsla UNICEF, Undernourished and Overlooked, sem kom út í dag sýnir að vannæring meðal mæðra hefur aukist um 25 prósent frá árinu 2020 í þeim löndum þar sem næringarkrísan í heiminum er sem verst. Ástandið er sérstaklega hættulegt í 12 löndum: Afganistan, Búrkína Fasó, Tsjad, Eþíópíu, Kenía, Malí, Níger, Nígeríu, Sómalíu, Suður-Súdan, Súdan og Jemen og hefur versnað vegna stríðsins í Úkraínu, heimsfaraldurs COVID-19 og áframhaldandi þurrka, átaka og óstöðugleika. 

Skýrslan er fyrsta heildræna yfirlitið yfir næringarstöðu stúlkna og kvenna á heimsvísu. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, varar við því að þessi mikla aukning setji mæður og börn þeirra í mikla hættu. Meira en einn milljarður stúlkna og kvenna í heiminum í dag þjáist af vannæringu, skorti á nauðsynlegum næringarefnum og blóðleysi, með skelfilegum afleiðingum á líf þeirra og heilsu.  

„Móðir klárar að undirbúa matinn og setur hann fyrir framan börnin sín. Hún hefur geymt stærstu skammtana og þá ferskustu fyrir þau. Í dag, þegar peningar og matur eru af skornum skammti, borðar hún minna eða sleppir máltíðum alveg til að tryggja að restin af fjölskyldunni fái nóg. Svona lítur matartíminn út hjá milljónum kvenna um allan heim, og fyrir margar þeirra er ástandið að versna,” segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í inngangi skýrslunnar og ítrekar að þörf sé á tafarlausum aðgerðum alþjóðasamfélagsins til að bregðast við stöðunni.  

Stúlka í Eþíópíu fær járntöflur og fólínsýru á heilsugæslu studdri af UNICEF

Áframhaldandi kynjamisrétti gert stöðuna verri 

Vannæring á meðgöngu og við brjóstagjöf getur einnig leitt til alvarlegrar vannæringar hjá börnum. Á heimsvísu þjást að minnsta kosti 51 milljón barna undir 2 ára aldri af vaxtaskerðingu vegna vannæringar. Helmingur þeirra tilfella koma fram á meðgöngu og á fyrstu sex mánuðunum í lífi barnsins, þegar það er sem mest háð næringu frá móður sinni.

 „Til að koma í veg fyrir vannæringu hjá börnum verðum við einnig að takast á við vannæringu hjá ungum stúlkum og konum," segir Russell. 

Suður-Asía og Afríka sunnan Sahara eru enn helstu áhættusvæði næringarkrísunnar. Samkvæmt skýrslunni eru jaðarsettar stúlkur og konur sem lifa við fátækt í mestri hættu. Ófullnægjandi næring getur leitt til skerts ónæmiskerfis og aukinnar hættu á lífshættulegum fylgikvillum - þar á meðal á meðgöngu og við fæðingu - með alvarlegum afleiðingum á afkomu, vöxt og framtíð barna þeirra. Áframhaldandi kynjamisrétti hefur gert stöðuna enn verri en árið 2021 bjuggu 126 milljónir fleiri kvenna við fæðuóöryggi en karlar, samanborið við 49 milljónum fleiri árið 2019.  

UNICEF sinnir næringarverkefnum í öllum þeim löndum sem verða fyrir mestum áhrifum næringarkrísunnar og hefur aukið viðbrögð sín til að koma í veg fyrir, greina og meðhöndla vannæringu kvenna og barna. Með skýrslunni skorar UNICEF á stjórnvöld, samstarfsaðila í þróunarsamvinnu og styrktaraðila að bregðast tafarlaust við stöðunni áður en hún versnar enn frekar. UNICEF leggur meðal annars áherslu á að forgangsraða aðgengi unglingsstúlkna og kvenna að næringarríku og öruggu mataræði;  tryggja að unglingsstúlkur og konur í lág- og millitekjuríkjum hafi ókeypis aðgang að nauðsynlegri næringarþjónustu, bæði fyrir og á meðgöngu, og á meðan þær eru með barn á brjósti; og að flýta fyrir útrýmingu barnabrúðkaupa og óréttlátrar skiptingar á mat, tekjum og heimilisstörfum. 

Skýrsluna og allar tillögur UNICEF að úrbótum má kynna sér hér.  

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn