12. júlí 2023

Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna: 735 milljónir glíma við hungur

Heimsfaraldur, öfgar í veðri og stríðsátök helstu ástæður hungurs

Ef fram heldur sem horfir mun heimsbyggðin ekki ná heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að útrýma hungri fyrir árið 2030. Ný skýrsla stofnana Sameinuðu þjóðanna greinir frá því að um 735 milljónir einstaklinga í heiminum hafi glímt við hungur árið 2022 og fjöldinn hafi staðið í stað milli ára, þó talsverð aukning hafi orðið ef litið er aftur til ársins 2019, fyrir heimsfaraldur Covid-19. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslunni State of Food Security and Nutrition in the World (SOFI) sem birt var í dag af fimm stofnunum Sameinuðu þjóðanna sem eru;
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Alþjóðalandbúnaðarþróunarsjóðurinn (IFAD), UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP). 

Vonargeislar greinanlegir

Í skýrslunni er greint frá því áætlað sé að á bilinu 691-783 milljónir einstaklinga hafi glímt við hungur árið 2022 og miðgildi þess sé 735 milljónir. Hungurtölur þessar standa í stað milli ára sem verður að teljast jákvætt í ljósi þeirra stríðsátaka, eftirmála heimsfaraldurs og annarra hamfara, en ef miðað er við árið 2019, fyrir heimsfaraldur Covid-19, gefur að líta aukningu um 122 milljónir einstaklinga. 

Skýrslan greinir frá því að árangri var náð í Asíu og rómönsku Ameríku en aukning varð á hungri í ríkjum Vestur-Asíu, Karíbahafi og víðs vegar um Afríku þar sem staðan er verst og áætlað er að ein af hverjum fimm manneskjum glími við hungur. Tvöfalt fleiri en heimsmeðaltalið. 

„Það eru vonargeislar og sum svæði eru á réttri leið að ná næringarmarkmiðum fyrir 2030. En heilt yfir þá þurfum við kraftmiklar og tafarlausar aðgerðir til að bjarga Heimsmarkmiðunum. Við verðum að vinna að þoli gegn áföllum og neyðaraðstæðum sem ógna matvælaöryggi. Allt frá átökum til loftslagsmála,“ segir António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, í tilkynningu vegna skýrslunnar.

 Í formála skýrslunnar skrifa yfirmenn stofnananna fimm sem að henni koma:

„Án vafa er ljóst að það verður áskorun að ná heimsmarkmiðinu um ekkert hungur fyrir 2030. Spár gera ráð fyrir að nær 600 milljónir einstaklinga muni standa frammi fyrir hungri árið 2030.  Við eigum enga annarra kosta völ en að setja enn á ný og sem aldrei fyrr allt okkar afl í að endurbæta og gjörbreyta framleiðslu landbúnaðarafurða í baráttunni gegn fæðuóöryggi og vannæringu og þannig ná heimsmarkmiðinu.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn