07. febrúar 2023

Neyðarsöfnun: Þúsundir barna í hættu eftir hamfarir í Tyrklandi og Sýrlandi

Tala látinna hækkar með hverri klukkustund – Þúsundir heimila að engu orðin

Hópur íbúa í bænum Jandaris í norðvesturhluta Sýrlands bjargar barni úr rústum byggingar sem hrundi til grunna í jarðskjálftunum stóru í gær. Mynd: RAMI AL SAYED/AFP

Þúsundir barna og fjölskyldur þeirra eru í hættu eftir tvo stóra jarðskjálfta og tugi eftirskjálfta í suð-austurhluta Tyrklands og norðurhluta Sýrlands í gær. Tala látinna hefur hækkað óhugnanlega á þessum fyrsta sólarhring frá hamförunum og þegar þetta er skrifað hafa ríflega 4.300 fundist látin. Þúsundir bygginga hafa hrunið til grunna. Þúsundir fjölskyldna eru án heimilis. Og í Sýrlandi, þar sem ástandið var nógu skelfilegt fyrir vegna áralangra stríðsátaka og mannúðarkrísu, þurfa börn og fjölskyldur nauðsynlega á áframhaldandi stuðningi þínum að halda.

NEYÐARSÖFNUN UNICEF Á ÍSLANDI VEGNA SÝRLANDS

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er á vettvangi og störfum í báðum löndum að skipuleggja og undirbúa víðtæka mannúðaraðstoð ásamt samstarfsstofnunum.

„Myndirnar sem við sjáum frá Sýrlandi og Tyrklandi eru átakanlegar,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Fyrsti stóri skjálftinn varð um nótt svo flest börn voru í fastasvefni og hætturnar enn meiri. Eftirskjálftar juku enn á þá hættu. Hugur okkar er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara hamfara. Forgangsmál hjá okkur er að tryggja að börn og fjölskyldur fái allan þann stuðning sem þau þurfa.“

UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir Sýrland og landamærabæinn Gaziantep þar sem þúsundir sýrlenskra flóttamanna halda til við erfiðar vetraraðstæður. Í Sýrlandi ríkti fyrir ein versta og flóknasta mannúðarneyð í veröldinni og þessum gríðarlegu hamförum því vart á bætandi.

Stríð hefur geisað þar í tæp 12 ár, rúmlega 14,6 milljónir einstaklinga, þar af 6,5 milljónir barna, þurfa á mannúðaraðstoð að halda. Tæpar 7 milljónir einstaklinga eru á vergangi innanlands eftir að hafa þurft að flýja heimili sín. Þetta var neyðin fyrir hamfarirnar, nú hefur hún margfaldast og er orðin brýnni en nokkru sinni.

UNICEF hefur frá upphafi stríðs og allar götur síðan 1970 verið á vettvangi í Sýrlandi til að tryggja velferð og réttindi barna þar í landi. Unnið að því að tryggja börnum skjól, menntun, næringu og heilbrigðisþjónustu. Nú standa Sýrlendingar frammi fyrir enn einni áskoruninni og sem fyrr mun UNICEF standa við bakið á sýrlenskum börnum. Til þess þurfum við þinn stuðning.

Sendu SMS-ið STOPP í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 krónur.

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102040 kennitala: 481203-2950

AUR appið í númerið: 123-789-6262 eða með því að skrifa @unicef

Nánar hér: NEYÐARSÖFNUN UNICEF Á ÍSLANDI VEGNA SÝRLANDS

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn