13. október 2023

Neyðarsöfnun fyrir börn vegna átakanna á Gaza 

„Árásum á óbreytta borgara verður að linna og samkennd og alþjóðalög verða að sigra,“ segir talsmaður UNICEF

UNICEF á Íslandi hefur í dag hafið neyðarsöfnun fyrir verkefni UNICEF í þágu barna vegna átakanna á Gaza-svæðinu líkt og fleiri landsnefndir, m.a. á Norðurlöndunum. Hundruð barna hafa verið drepin og særð í átökum síðustu daga og með hverri klukkustundinni hækkar tala látinna. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur í dag ítrekað kröfu sína um tafarlaust vopnahlé og að stríðandi fylkingar verndi börn og almenna borgara.  

„UNICEF kallar eftir tafarlausu vopnahléi þar sem 1,1 milljón manns, þar sem næstum helmingur þeirra eru börn, hafa verið vöruð við áframhaldandi átökum og hvött til þess að yfirgefa svæðið. Hvergi er óhætt fyrir óbreytta borgara að fara. Börn og fjölskyldur á Gaza eru nærri uppiskroppa með mat, vatn, rafmagn, lyf og aðrar nauðsynjar,“ sagði James Elder, talsmaður UNICEF, á blaðamannfundi í Genf í morgun þar sem hann ræddi aðstæður barna á Gaza.  

„Myndir frá átökunum tala sínu máli. Við sjáum börn með hræðilega áverka. Sjúkrahúsin á svæðinu ná ekki að sinna þörfum þeirra sem þangað leita og ástandið versnar með hverjum deginum þar sem fjölgar í hópi fallinna og særðra,“ segir Elder.   

Elder ítrekaði einnig ákall um að ísraelskum börnum verði sleppt úr haldi svo þau geti sameinast fjölskyldum sínum á ný. „Mannúðarástandið á Gaza-ströndinni hefur sjaldan verið jafn hryllilegt og það er nú og benda allar fregnir til frekari árása,“ segir Elder.   

Börnin sem þjást mest 

Engum dylst að ástand barna á svæðinu er skelfilegt og fer versnandi. Eina raforkuver Gaza varð eldsneytislaust á miðvikudag og lokað hefur verið fyrir vatn. Flestir íbúar hafa ekki fengið hreint drykkjarvatn síðustu daga og miklar skemmdir hafa orðið á vatnslindum, vatnsdælustöðvum, vatnsgeymum og öðrum innviðum sem tryggja meira en einni milljón manns hreint vatn.  

„Árásum á óbreytta borgara verður að linna og samkennd og alþjóðalög verða að sigra,“ sagði Elder í morgun og lagði enn á ný áherslu á að starfsfólk hjálparstofnana þurfi að geta nálgast börn og fjölskyldur örugglega með björgunar- og mannúðaraðstoð og vistir, sama hvar þau eru staðsett.  

„Í hverju stríði eru það saklaus börn sem þjást mest og því miður sjáum við það greinilega á Gaza í dag,“ segir Elder.   

Ljóst er að átökin núna eru að hafa gríðarlega skaðleg áhrif á börn og almenna borgara beggja ríkja og ástandið jafnskelfilegt og það er flókið. En ólíkt þeirri flóknu stöðu sem uppi er á svæðinu þá eru markmið og verkefni UNICEF einföld. UNICEF stendur með réttindum barna, fyrir ÖLL börn. Það eru þau sem verða verst úti í öllum stríðsátökum og fyrir þau starfar UNICEF. 

Til að styrkja neyðarsöfnun fyrir börn í Gaza: 

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur.  

Frjáls framlög: 701-26-102015 Kennitala: 481203-2950 

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn