24. apríl 2023

Nemendur Verzló söfnuðu fyrir börn í Úkraínu

Frumleg og skemmtileg fjáröflun í góðgerðarviku skólans skilaði 900 þúsund krónum í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi

Góðgerðarráð Verzlunarskóla Íslands með Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi

UNICEF á Íslandi fékk heldur betur frábæra heimsókn á dögunum frá nemendum Verzlunarskóla Íslands sem komin voru til að afhenda afrakstur góðgerðarviku skólans þar sem safnað var fyrir börn í Úkraínu.

Óhætt er að segja að fjáröflunarleiðir nemenda hafi verið ótrúlega frumlegar og skemmtilegar þar sem mörg lögðu greinilega mikið á sig fyrir gott málefni með margvíslegum áskorunum.

Meðal annars gistu nokkrir piltar á þriðja ári alla vikuna í nemendaskjallara skólans, tveir nemendur unnu heilan skóladag við afgreiðslu og undirbúning í Matbúð og stúlka á öðru ári var heilan dag á hjólaskautum. Þrjár stúlkur söfnuðu áheitum með því að ganga í skólann alla leið frá Kjalarnesi, alls 25 kílómetra, tveir nemendur á þriðja ári fengu sér húðflúr og einn nemandi litaði hárið á sér bleikt.

Þá var einnig boðið upp á happdrætti, lukkuhjól og sölu veitinga.

Árangurinn var sannarlega glæsilegur en fulltrúar úr góðgerðaráði skólans afhentu alls 900 þúsund krónur í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Úkraínu.

UNICEF á Íslandi færir nemendum Verzlunarskóla Íslands og öllum sem styrktu söfnunina hjartans þakkir fyrir stuðninginn.  Þvílíkir snillingar.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn