03. febrúar 2021

Nemendur Dalvíkurskóla gefa Sannar gjafir fyrir börn í neyð

Eftir að hafa lært um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmiðin, fátækt og hungur ákváðu nemendur í 5. bekk í Dalvíkurskóla að skoða hvað hægt væri að gera til þess að hjálpa jafnöldrum sínum sem þurfa á aðstoð að halda.

Það er alltaf gaman að fá fréttir af framtakssömum ungmennum sem ákveða að láta gott af sér leiða og hjálpa börnum í neyð. Eftir að hafa lært um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Heimsmarkmiðin, og þá sérstaklega um fátækt og hungur, ákváðu nemendur í 5. bekk í Dalvíkurskóla að kanna hvað hægt væri að gera til þess að hjálpa jafnöldrum sínum sem þurfa á aðstoð að halda. Þau rákust þá á vefverslun UNICEF á Íslandi, sannargjafir.is, þar sem hægt er að kaupa ýmis hjálpargögn fyrir börn í neyð. Þar sáu þau að það þarf ekki að kosta mikið til að hjálpa öðrum.

Nemendurnir fóru heldur betur á flug og ákáðu að ganga í hús á Dalvík og safna styrkjum fyrir málefnið. Viðtökurnar létu ekki á sér standa og söfnuðu nemendurnir fyrir ýmsum lífsnauðsynlegum hjálpargögnum. Heil kennslustund fór síðan í að finna út hvaða hjálpargögn væri mest þörf fyrir og hve mikið væri hægt að kaupa. Það sem ungmennin völdu að gefa var vernd fyrir heilbrigðisstarfsfólk, handsápur, stúlknastyrkur, hlý vetrarföt, námsgögn fyrir börn, jarðhnetumauk og vatnshreinsitöflur.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem nemendur skólans taka sig saman og safna fyrir góðu málefni. Dalvíkurskóli hefur meðal annars verið einn af öflugustu skólum landsins í UNICEF-hreyfingunni um árabil.

Fyrir hönd þeirra barna sem njóta góðs af þakkar UNICEF á Íslandi nemendum skólans kærlega fyrir þetta frábæra framtak!

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn