12. júní 2024

Nærri þrjú þúsund vannærð börn þungt haldin því árásir á Rafah loka á aðstoð

Eru að deyja fyrir augum fjölskyldu sinnar segir svæðisstjóri UNICEF

Nærri þrjú þúsund börn geta ekki fengið viðeigandi meðhöndlun vegna vannæringar í suðurhluta Gaza þar sem árásir og hernaðaraðgerðir í Rafah hafa lokað á mannúðaraðstoð og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, greinir frá þessu í tilkynningu í dag þar sem haft er eftir svæðisstjóra UNICEF að hætt sé við að þessi börn deyi fyrir augum foreldra sinna og fjölskyldu.

Þó aðgengi fyrir afhendingu matvælaaðstoðar hafi skánað í norðurhluta Gaza hefur ástandið versnað gríðarlega í suðri. Mælingar sem gerðar voru í mið- og suðurhluta Gaza benda til að tilfellum vannæringar og alvarlegrar vannæringar barna hafi fjölgað umtalsvert síðan aðra vikuna í maí, þegar verulega dró úr mannúðaraðstoð og dreifingu hjálpargagna vegna aukinna hernaðaraðgerða Ísraelsmanna í Rafah.

Glórulaus skerðing kostar börn lífið

„Skelfilegar myndir berast enn frá Gaza af börnum að deyja í fangi fjölskyldna sinna vegna áframhaldandi skorts á mat, næringaraðstoð og eyðileggingu grunninnviða í heilbrigðisþjónustu,“ segir Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og N-Afríku. „Ef þessi þrjú þúsund börn fá ekki aftur aðgang að þeirri meðhöndlun sem þau voru að fá við vannæringu sinni eru þau í gríðarlegri hættu á að verða alvarlega veik, hljóta lífshættulega fylgikvilla og bætast í hóp þeirra drengja og stúlkna sem drepin hafa verið sökum þessarar glórulausu skerðingar af mannavöldum.“

Á sama tíma og hættan af aukinni vannæringu er næringarþjónusta á Gaza að hruni komin. Í dag eru aðeins tvær af þremur næringarmiðstöðvum sem meðhöndla alvarlega vannærð börn starfandi. Og fyrirhuguð opnun nýrra slíkra stöðva hafa tafist vegna áframhaldandi hernaðaraðgerða á svæðinu.

UNICEF vekur athygli á því að til að meðhöndla bráðavannæringu barna þurfi að jafnaði sex til átta vikur af óraskaðri meðferð sem krefst sérstakrar næringarfæðu, hreins vatns og annarra sjúkragagna.

Vannærð börn eru í miklum áhættuhópi til að fá sjúkdóma og önnur heilsutengd vandkvæði þegar aðgengi að hreinu og öruggu vatni, hreinlætisþjónustu og nauðsynlegra innviða nýtur ekki við. Vatnsframleiðsla á Gaza er nú aðeins fjórðungur af því sem var áður en innrás hófst í október síðastliðnum.

Eyðileggingin heldur áfram þrátt fyrir varnarorð

„Varnarorð okkar um aukinn fjölda barna sem er að deyja sökum vannæringar, ofþornunar, sjúkdóma og annarra vandkvæða sem hægt er að koma í veg fyrir hefðu átt að vera nóg til að virkja tafarlausar aðgerðir til að bjarga lífi barna, en þrátt fyrir það heldur eyðileggingin áfram,“ segir Khodr.

„Í ljósi þess að sjúkrahús eru gjöreyðilögð, meðferðarúrræði hafa raskast og hjálpargögn takmörkuð stöndum við frammi fyrir enn meiri þjáningu barna og dauða.“

UNICEF með hjálpargögn tilbúin til afhendingar

Síðan í október 2023 hefur UNICEF náð til tugþúsunda barna og kvenna með mannúðaraðstoð meðferðarúrræði við vannæringu.

„UNICEF er þegar með mikið magn af næringu og hjálpargögnum tilbúin til að komast á Gaza ströndina, þegar aðgangur fæst. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru í leit að tryggingu fyrir því að mannúðaraðstoð og aðgerðir til að útvega og dreifa hjálpargögnum til barna og fjölskyldna geti átt sér stað án raskana og takmarkana. Við þurfum betri, öruggari og óhindraðar starfsaðstæður á vettvangi. En ofar öllu þá þurfa börnin á Gaza tafarlaust vopnahlé og frið,“ segir Khodr að lokum.

Með því að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza leggur þú þitt af mörkum við að tryggja að UNICEF geti verið tilbúið með og komið fyrir nauðsynlegum hjálpargögnum við landamæri Gaza og brugðist við þegar færi gefst.


Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn