Árið 1996 hafði barnanæringarfræðingurinn André Briend prófað ótal uppskriftir í leit að næringarríkri og handhægri fæðu sem gæti nýst í baráttunni gegn vannæringu barna. Briend hafði í nokkur ár gert ýmsar tilraunir, meðal annars með pönnukökur og kleinuhringi, en án árangurs.
En dag einn, á ferðalagi um Malaví, fékk hann skyndilega hugljómun þegar hann hélt á krukku af Nutella súkkulaðiviðbiti. Briend stökk til og fékk lánaða matvinnsluvél á veitingastað í nágrenninu og hófst handa við að gera sína fyrstu blöndu af jarðhnetumauki úr blöndu af hnetum, mjólkurdufti, olíu, vítamínum og steinefnum. Varð þetta upphafið að því sem hann og matvælaverkfræðingurinn Michel Lescanne áttu síðan eftir þróa í vöruna Plumpy‘Nut sem allar götur síðan hefur valdið straumhvörfum í meðhöndlun vannæringar hjá börnum um allan heim.
Hver pakki af þessu vítamínbætta jarðhnetumauki er smekkfullur af næringu og inniheldur 500 hitaeiningar. Pakkarnir eru þeim góða eiginleika gæddir að hafa mikið geymsluþol– líka í miklum hita svo mánuðum skiptir– hægt er að neita innihaldsins beint úr pakkanum án allra áhalda og aðgengi að hreinu vatni. Þessir litlu kraftaverkapakkar eru því fullkomnir í neyð og við aðrar bágbornar aðstæður.
Plumpy‘Nut er einnig þekkt sem Ready to Use Theraputic Food (RUTF). UNICEF er stærsti einstaki kaupandinn að RUTF-jarðhnetumauki í heiminum og útvegar á bilinu 75-80 prósent allra pakka sem seldir eru í heiminum. Að meðaltali um 49 þúsund tonn á ári síðustu fjögur árin. Það er magn sem dugar til að meðhöndla 3,5 milljónir barna við vannæringu, sem þrátt fyrir allt er aðeins um 25% af heildarþörfinni ef miðað er við fjölda barna sem þjást af alvarlegri vannæringu. 5-10% alls RUTF er útvegað af stjórnvöldum um allan heim, frjálsum félagasamtökum og öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Það þýðir að um 65-70 prósent barna í heiminum sem þjást af vannæringu fá ekki þessa mikilvægu hjálp. Mikið verk er því fyrir höndum að ná til þessa meirihluta.
UNICEF fær nú RUTF frá 22 mismunandi birgjum um heim, þar af 18 sem staðsettir eru í löndum þar sem vannæring er alvarlegt vandamál. M.a. í Malaví þaðan sem rekja má uppruna RUTF. Aukið framboð á jarðhnetum, sem og aukin samkeppni hefur hjálpað til við að lækka verð vörurnar undanfarin ár sem gerir þetta að ódýrri og ótrúlega árangursríkri lausn við stóru vandamáli.
Jarðhnetumaukið vinsælasta gjöfin á Sannargjafir.is
Á vefnum Sannargjafir.is getur þú keypt næringarríkt jarðhnetumaukspakka í ýmist 30, 50, 100 eða 500 poka samsetningum og þannig tryggt vannærðum börnum um allan heim þessar kraftaverkakaloríur. Hver poki kostar aðeins 50 krónur en hefur jarðhnetumaukið lengi verið ein vinsælasta gjöfin hjá UNICEF á Íslandi og keyptu landsmenn vel á annað hundrað þúsund slíka pakka á síðasta ári. Það má bjarga ansi mörgum lífum fyrir það magn.
Svo næst þegar þú opnar krukku af þínu uppáhalds súkkulaðiviðbiti til að smyrja á brauðsneið, hugsaðu þá til Frakkans André Briend og jarðhnetumauksins sem bjargar í dag ótal vannærðum börnum á degi hverjum. Nú stendur yfir mikilvægasta tímabil ársins í sölu Sannra gjafa fyrir jólin og UNICEF þarf nú sem fyrr á þínum stuðningi að halda.
Gefðu gjöf sem aldrei gleymist og finndu hinn sanna anda jólanna með Sannri gjöf.