29. janúar 2021

Mosfellsbær tólfta sveitarfélagið til að taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög með UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytinu

Með undirskriftinni bætist Mosfellsbær í ört stækkandi hóp sveitarfélaga á Íslandi sem vinna að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, undirrituðu í dag samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Með undirskriftinni bætist Mosfellsbær í ört stækkandi hóp sveitarfélaga á Íslandi sem vinna að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi. Í kjölfar undirskriftarinnar eru sveitarfélögin orðin tólf talsins.

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög miðar að því að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.

Stórt skref í átt að Barnvænu Íslandi

Fyrsta sveitarfélagið til að taka þátt í verkefninu er Akureyrarbær, sem hóf vinnu við að verða Barnvænt sveitarfélag árið 2016, og varð í lok maí 2020 fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta þá viðurkenningu. Áhugi á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill og biðlistar myndast. Þann 18. nóvember 2019, í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, gengu félags- og barnamálaráðherra og UNICEF á Íslandi til samstarfs við framkvæmd verkefnisins undir formerkjum Barnvæns Íslands. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að vel á annan tug sveitarfélaga bætist í hópinn.

Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.

Eins og fyrr segir var samstarfssamningurinn unirritaður í dag af Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra, Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Haraldi Sverrisyni, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Þau voru að vonum ánægð og spennt fyrir framhaldinu:

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er frábært að sjá Mosfellsbæ bætast i hóp þeirra sveitarfélaga hér á landi sem taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með okkur og ánægjuefni að sveitarfélagið ætli að vinna að krafti að málefnum barna á næstu árum. Það hefur verið ómetanlegt að finna áhugann á verkefninu hjá sveitarfélögum landsins og sjá þau setja málefni barna og fjölskyldna í svo skýran forgang. Saman ætlum við að og ánægjuefni að sveitarfélagið ætli að vinna að krafti að málefnum barna á næstu árum. Það hefur verið ómetanlegt að finna áhugann á verkefninu hjá sveitarfélögum landsins og sjá þau setja málefni barna og fjölskyldna í svo skýran forgang. Saman ætlum við að gera Ísland að besta stað í heimi fyrir börn.“

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar: „Við Mosfellingar erum full tilhlökkunar um að takast á við þau úrlausnarefni sem mæta okkur á þeirri vegferð að verða eitt af Barnvænu sveitarfélögum landsins. Við sjáum fyrir okkur þétt samstarf lýðræðis- og mannréttindanefndar og ungmennaráðs við íbúa við að nýta barnasáttmálann sem grunn viðmið í okkar starfi þannig að hann verði sem rauður þráður í starfsemi Mosfellsbæjar. Það er margt í stefnu sveitarfélagsins sem er til þess fallið að efla og styrkja stöðu barna og við höfum tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í okkar stefnumörkun síðustu misserin.

Okkar leiðarstef í vinnunni framundan verður þátttaka barna og ungmenna enda nýtur Mosfellsbær góðs af sterkum tengingum á milli fólks og miklum félagsauð sem veitir okkur byr í seglin þegar kemur að því að virkja samfélagið til góðra verka. Í leik- og grunnskólum höfum við hingað til unnið með Barnasáttmálann í þemaverkefnum á fjölbreyttan hátt og félagsmiðstöðin hefur staðið að fræðslu á efni sáttmálans. Mikilvægasta næsta skref í þessari vinnu er samstarfið við félagsmálaráðuneytið og UNICEF þar sem unnið verður að því að stefnumótun og ákvarðanataka sveitarfélagsins taki bæði mið af Barnasáttmálanum og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi: „Nú þegar Mosfellsbær hefur bæst í glæstan hóp sveitarfélaga sem stefna að því að verða Barnvæn sveitarfélög þýðir það að um 45% barna á Íslandi búa í sveitarfélögum sem vinna markvisst að því að Barnarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé leiðarljós í öllu þeirra starfi. Það er mikið fagnaðarefni og stórt skref í áttina að Barnvænu Íslandi. Við hlökkum mikið til samstarfsins og vinnunnar framundan.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn