29. maí 2024

5,7 milljarðar í kjarnaframlög frá Íslandi til verkefna UNICEF frá árinu 2005 

Kjarnaframlög frá almenningi og fyrirtækjum á Íslandi til verkefna UNICEF numið 5,7 milljörðum króna frá 2005 – Ársfundur UNICEF á Íslandi haldinn í dag og ársskýrsla 2023 gefin út – Magnús Geir Þórðarson nýr inn í stjórn 

Stjórn UNICEF á Íslandi f.v. Hjörleifur Pálsson, Hjördís Freyja Kjartansdóttir, Brynjar Bragi Einarsson (áheyrnarfulltrúi Ungmennaráðs), Birna Þórarinsdóttir frkvstj., Edda Hermannsdóttir formaður, Guðrún Pétursdóttir, Tatjana Latinovic og Magnús Geir Þórðarson. Á myndina vantar Gunnar Helgason og Jón Magnús Kristjánsson. Mynd/Laufey Björk

Síðasta ár var annað tekjuhæsta ár landsnefndar UNICEF á Íslandi í fjáröflun frá upphafi og metár í kjarnaframlögum til UNICEF. Slík framlög eru gríðarmikilvæg því þau gera UNICEF kleift að bregðast við þar sem þörfin er mest hverju sinni og sinna nauðsynlegri langtímauppbyggingu í samfélögum sem stuðla að varanlegum umbótum fyrir börn um allan heim. Munar þar mestu um framlag Heimsforeldra, mánaðarlegra styrktaraðila UNICEF, en frá árinu 2005 til 2023 hafa kjarnaframlög sem þessi frá almenningi og fyrirtækjum á Íslandi numið alls rétt tæplega 5,7 milljörðum króna sem ráðstafað hefur verið til verkefna UNICEF í þágu barna um allan heim.  

Enn á ný er hlutfallslegur fjöldi Heimsforeldra á Íslandi sá hæsti hjá UNICEF á heimsvísu en í árslok 2023 voru þeir um 24 þúsund talsins um allt land. Í ár fögnum við einmitt 20 ára afmæli Heimsforeldra á Íslandi og þeim stuðningi og árangri sem náðst hefur í þágu réttinda og velferðar barna á því tímabili.  

Í dag fór fram ársfundur landsnefndar UNICEF á Íslandi þar sem niðurstöður nýútkominnar ársskýrslu fyrir árið 2023 voru kynntar og lesa má nánar um hér fyrir neðan. 

Styrkur Íslands í fjölkrísuheimi  

Tekjur UNICEF á Íslandi árið 2023 námu 889.963.454 krónum og tæp 69% af tekjunum komu frá Heimsforeldrum, mánaðarlegum styrktaraðilum UNICEF. Árið var annað tekjuhæsta ár UNICEF á Íslandi í fjáröflun frá upphafi og aðeins árið 2022 safnaðist meira til verkefna í þágu barna um allan heim.  508 milljónum var varið í kjarnaframlög til starfsemi UNICEF um allan heim. Tæpum 42 milljónum var varið til neyðar- og uppbyggingarverkefna, svo sem í Palestínu, Afganistan og Fílabeinsströndinni, um 78 milljónum króna var varið til verkefna innanlands við réttindagæslu, réttindafræðslu og innleiðingu Barnvænna sveitarfélaga í góðu samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið.  

Þegar árið 2023 var gert upp var framlag landsnefndar UNICEF á Íslandi til verkefna UNICEF á heimsvísu næsthæst allra landsnefnda miðað við höfðatölu. Stuðningur íslensku þjóðarinnar við markmið UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um réttindi fyrir öll börn er því eftirtektarverður og bókstaflega í heimsklassa. Þessi stuðningur og velvild sýnir fyrst og fremst það mikla traust sem UNICEF nýtur meðal almennings, fyrirtækja og stjórnvalda hér á landi til góðra verka í þágu velferðar og réttinda barna um allan heim.    

Árið 2023 bjuggu rúmlega 450 milljónir barna á átakasvæðum eða voru á flótta undan átökum, eða nærri 1 af hverjum 5 börnum í heiminum, og mörg þeirra máttu þola ólýsanlegar þjáningar þar sem réttindi þeirra voru virt að vettugi. Það er við aðstæður sem þessar sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sýnir mikilvægi sitt í fjölkrísuheimi og er landsnefnd UNICEF á Íslandi stolt að geta lagt sitt af mörkum til þessara risavöxnu verkefna stofnunarinnar með stuðningi frá einstaklingum, fyrirtækjum og stjórnvöldum hér á landi.  

Söguleg innganga í Alþjóðaráð UNICEF  

Þau tíðindi urðu einnig á árinu 2023 að Karen Olga Ársælsdóttir varð fyrsti Íslendingurinn til að taka sæti í Alþjóðaráði UNICEF. Alþjóðaráðið er vettvangur innan UNICEF fyrir stærstu einstaklingsfjárfesta í verkefnunum stofnunarinnar þar sem þeim gefst tækifæri til að hafa áhrif, ekki einungis í formi framlaga, heldur einnig hugmynda, ráðlegginga og umræðu. Karen Olga hefur til margra ára stutt UNICEF með framlögum til sérverkefna en hefur einnig fjárfest ríkulega í kjarnastarfi stofnunarinnar.  

Öflugt innanlandsstarf vex og dafnar  

Í innanlandsstarfi UNICEF á Íslandi var áhersla lögð á rétt barna til þátttöku og jafnræðis og unnið að fjölmörgum verkefnum því tengdu. Börnum á flótta á Íslandi fjölgaði á árinu 2023 og beitti UNICEF á Íslandi sér fyrir réttindum þeirra auk þess sem landsnefndin þrýsti á stjórnvöld að huga að réttindum barna í tengslum við loftslagsbreytingar.  

Í verkefninu Réttindaskóli og -frístund studdi UNICEF á Íslandi innleiðingu Barnasáttmálans í 93 leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum í sex sveitarfélögum. Í verkefninu er lögð áhersla á að fræða starfsfólk um réttindi barna, meta stöðu réttinda barna og grípa til aðgerða til að bæta stöðu barnanna með virkri þátttöku þeirra. Í árslok 2023 voru 18.387 börn í Réttindaskólum og -frístund UNICEF eða rétt rúmlega 25% barna á grunnskólaaldri.  

Að auki býr nú yfir helmingur barna á Íslandi í sveitarfélagi sem innleiðir Barnasáttmálann með aðstoð UNICEF á Íslandi. Húnaþing vestra og Hvalfjarðarsveit bættust í hóp sveitarfélaga sem vinna að því að verða Barnvæn sveitarfélög og voru þau 23 í árslok í öllum landshlutum.  

Magnús Geir tekur sæti í stjórn UNICEF á Íslandi  

Á ársfundi UNICEF á Íslandi sem haldinn var í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag var tilkynnt um eina breytingu á stjórn landsnefndarinnar. Guðrún Hálfdánardóttir víkur úr stjórn eftir fjölmörg farsæl ár og óeigingjarnt starf í þágu landsnefndarinnar og við sæti hennar tekur Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.  

Ný stjórn landsnefndar UNICEF á Íslandi er því þannig skipuð:  

Edda Hermannsdóttir, formaður, Hjörleifur Pálsson, varaformaður, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, Guðrún Pétursdóttir, Gunnar Helgason, Hjördís Freyja Kjartansdóttir, Jón Magnús Kristjánsson, Brynjar Bragi Einarsson, Tatjana Latinovic og Magnús Geir Þórðarson. 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi 

„Það er ekki annað hægt en að fyllast auðmýkt og stolti þegar við lítum yfir árangur síðasta árs því hann staðfestir hvað réttindi barna skipta okkur sem búum á Íslandi miklu máli. Hvert sem borið er niður, hvort sem það er í starfi sveitarfélaga og skóla í þágu barna og með börnum - eða í fjáröflun meðal einstaklinga og fyrirtækja fyrir lífsbjargandi verkefni UNICEF um allan heim, þá náum við árangri á heimsmælikvarða. Þetta er ekki árangur sem landsnefnd UNICEF á Íslandi á heldur er þetta árangur sem fjöldi fólks, þúsundir einstaklinga, ná í sameiningu. Hlutverk landsnefndar UNICEF er að vera millistykki sem hjálpar fólki að hjálpa börnum; við erum í þjónustuhlutverki við metnað fólks fyrir framtíð og réttindi barna. Heimurinn þarf svo sannarlega á fyrirmyndum líkt og Íslandi að halda og við hlökkum til að starfa - áfram og upp á við - fyrir öll börn.“ 

Ársskýrslu UNICEF á Íslandi fyrir árið 2023 má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn