09. júlí 2020

Marley-fjölskyldan endurútgefur One Love til styrktar UNICEF

Tuff Gong International og Amplified Music munu endurútgefa lagið One Love eftir Bob Marley þann 17. júlí næstkomandi og mun allur ágóði lagsins og tengdum viðburðum renna óskiptur í alþjóðlegan sjóð UNICEF sem ber yfirskriftina Reimagine.

Magnað baráttufólk sem lætur sig málefni barna varða kemur að tónleikunum!

9. júlí 2020 Tuff Gong International og Amplified Music munu endurútgefa lagið One Love eftir Bob Marley þann 17. júlí næstkomandi og mun allur ágóði lagsins og tengdum viðburðum renna óskiptur í alþjóðlegan sjóð UNICEF sem ber yfirskriftina Reimagine. Sú herferð aflar fjár til baráttu UNICEF fyrir því að tryggja að COVID-19 heimsfaraldurinn verði ekki varanleg krísa fyrir börn og tryggja réttindi barna um allan heim.

Frá og með deginum í dag mun skartgripaframleiðandinn Pandora, sem einnig er alþjóðlegur samstarfsaðili UNICEF, jafna hvert framlag dal fyrir dal sem berst frá almenningi í tengslum við One Love, upp að einni milljón dala. Eða sem nemur rúmlega 140 milljónum íslenskra króna.

„Fyrir rúmum 40 árum samdi faðir minn One Love um samstöðu, frið og alþjóðlega ást á tímum mikilla erfiðleika í heiminum. Þrátt fyrir að við getum ekki komið saman (e. „get together“ eins og segir í laginu) þá eiga skilaboðin eins vel við í dag og þá. Við getum komist í gegnum þessa alheimskrísu ef við komum saman sem eitt í gegnum eina ást og eitt hjarta,“ segir Cedella Marley í tilkynningu frá UNICEF.

One Love kom út árið 1977 með Bob Marley og hljómsveitinni The Wailers. Lagið sló í gegn um allan heim og hefur hljómað allar götur síðan. Endurútgáfan verður sannkallaður lofsöngur fyrir allan heiminn með meðlimum Marley-fjölskyldunnar, þekktum tónlistarmönnum frá öllum heimshornum, listamönnum frá stríðssvæðum og börnum sem búa við erfiðar aðstæður.

„One Love talar beint inn lykilsannleika þessa heimsfaraldurs. Að okkar besta von til að yfirstíga COVID-19 og endurskapa jafnari og fordómalausari veröld fyrir börn er með samstöðu og alþjóðlegu samstarfi,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu. „Það eru gleðitíðindi að Marley-fjölskyldan og Pandora skuli styrkja okkur svo rausnarlega með sköpunarkrafti sínum og ást til aðstoðar viðkvæmustu börnum veraldar.“

Fjármunir sem safnast vegna One Love fyrir Reimagine-herferð UNICEF munu hjálpa stofnuninni að bregðast við þörfum og neyð vegna COVID-19. Útvega sápu, andlitsgrímur, hreinlætispakka, hlífðarfatnað og veita börnum og fjölskyldum þeirra nauðsynlega fræðslu og upplýsingar, styðja við mennta- og heilbrigðiskerfi svo fátt eitt sé nefnt. Allt er þetta liður í að bregðast við, endurbyggja og endurhugsa betri heim fyrir börn eftir COVID-19.

Til að styðja við útgáfu lagsins mun samfélagsmiðillinn TikTok hrinda af stað áskorun og sérstökum viðburðum um allan heim. Nánari dagsetning á því verður tilkynnt síðar.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn