06. mars 2023

Einn mánuður frá hamfaraskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi

Milljónir barna og fjölskyldna á svæðum sem urðu verst úti þurfa áframhaldandi mannúðaraðstoð.

Meira en 850,000 börn eru á vergangi eftir að hafa misst heimili sín í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi í síðasta mánuði. Fjöldi barna sem létust eða slösuðust í skjálftunum og eftirskjálftum hefur enn ekki verið staðfestur en líklegt er að þau séu mörg þúsund. Alls hafa jarðskjálftarnir og eftirskjálftarnir kostað líf meira en 50,000 manns og þúsundir annarra hafa slasast. Gríðarlegar eyðileggingar urðu á byggingum og öðrum nauðsynlegum innviðum sem börn reiða sig á.   

Í Tyrklandi dvelja nú yfir 1,9 milljónir manns í neyðarskýlum með takmarkaðan aðgang að grunnþjónustu eins og vatni, hreinlætisaðstöðu og læknishjálp. 2,5 milljónir barna í landinu eru í brýnni þörf fyrir mannúðaraðstoð.  Tyrkland hýsir mesta fjölda flóttamanna í heiminum, þar á meðal mikinn fjölda fólks frá Sýrlandi sem hafa flúið stríðið í heimalandinu sem hefur staðið yfir í 12 ár. Talið er að alls 1,7 milljónir skráðra flóttamanna hafi orðið fyrir áhrifum jarðskjálftanna, þar á meðal meira en 811,000 börn.  

Í Sýrlandi er talið að yfir 500,000 manns hafi verið hrakin frá heimilum sínum vegna jarðskjálftanna. Fjölmargir skólar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðis- og menntastofnanir hafa skemmst eða eyðilagst í skjálftunum og sett aukið álag á börn. Mikilvægir innviðir víðsvegar um Sýrland hafa skemmst, þar á meðal mikilvæg vatns- og hreinlætiskerfi.  

Meira en 850,000 börn eru á vergangi eftir að hafa misst heimili sín í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi í síðasta mánuði.

Samkvæmt UNFPA eru um 356,000 þungaðar konur á jarðskjálftasvæðunum sem þurfa brýnan aðgang að mæðravernd, þar af eru um 38,800 konur sem eiga von á sér í næsta mánuði. UNICEF hefur útdeilt mikilvægum sjúkragögnum á hamfarasvæðin, þar á meðal ljósmæðra- og fæðingarsettum til að hjálpa þunguðum konum.   

Jafnvel fyrir þessa hamfarajarðskjálfta var þörf barna í Sýrlandi fyrir mannúðaraðstoð meiri en nokkru sinni fyrr,” sagði Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Þegar við nálgumst 12 ár af átökum lifa milljónir fjölskyldna á barmi hörmunga og finnst eins og heimurinn hafi gleymt þeim. Við verðum að styðja þessar fjölskyldur til lengri tíma litið og hjálpa þeim að koma lífi sínu aftur á réttan kjöl.” 

UNICEF hefur sett upp barnvæn svæði og stutt við bráðabirða kennslumiðstöðvar

UNICEF á Íslandi hóf neyðarsöfnun vegna jarðskjálftanna fyrir mánuði síðan sem enn er í fullum gangi. Þökk sé stuðningi almennings, fyrirtækja og stjórnvalda hefur UNICEF náð að veita fjölda fólks á hamfarasvæðunum aðstoð. Þar má nefna: 

Neyðaraðstoð í Tyrklandi: 

  • UNICEF hefur dreift vetrarfatnaði, rafmagnshiturum og teppum til nærri 277,000 manns, þar af eru yfir 163,000 börn; 
  • Í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneyti Tyrklands hefur UNICEF útvegað lífsnauðsynleg bóluefni og kælibúnað til að flytja bóluefnin á öruggan hátt; 
  • 258,000 manns, þar af 148,000 börn hafa fengið hreinlætisvörur; 
  • UNICEF hefur sett upp barnvæn svæði nálægt neyðarskýlunum og hefur hingað til veitt yfir 193,000 manns áfallahjálp og frístundastarf; 
  • UNICEF hefur stutt tyrkneska menntamálaráðuneytið við að setja upp 87 tjöld sem notuð eru sem tímabundnar kennslumiðstöðvar; 
  • UNICEF heldur áfram að bera kennsl á fylgdarlaus og aðskilin börn og tryggir að þau fái frekari stuðning.   

Neyðaraðstoð í Sýrlandi: 

  • UNICEF hefur náð til nærri hálfrar milljónar manns með lífsbjargandi vatns- og hreinlætisaðstöðu (WASH); 
  • Meira en 294,000 manns, þar á meðal þau sem hafa leitað skjóls í neyðarskýlum, hafa fengið nauðsynleg sjúkragögn og læknisráðgjöf í gegnum heilsugæslustöðvar og færanleg heilsugæsluteymi studd af UNICEF; 
  • Meira en 130,000 börn undir fimm ára aldri á hamfarasvæðunum hafa fengið  næringaraðstoð; 
  • UNICEF hefur einnig náð til meira en 100,000 barna og umönnunaraðila með sálrænum stuðningi, þar á meðal áfallahjálp, frístundastarfi, sálrænni aðstoð og foreldranámskeiðum.  
  • Skólavörur og frístundapakkar, sem dreift eru í skólum og neyðarskýlum, gefa börnunum tækifæri til að halda áfram námi.   

Á næstu vikum mun UNICEF halda áfram að vinna með samstarfsaðilum sínum að því að ná til sem flestra barna og fjölskyldna með neyðaraðstoð og stuðningi til lengri tíma. 

UNICEF ítrekar enn á ný að tryggja verði óheft aðgengi hjálparsamtaka að hamfarasvæðum til að mæta brýnum þörfum þeirra barna og fjölskyldna sem búa nú við mikla neyð. 

Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF hér.  

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn