23. janúar 2025

Loftslagskrísan raskaði námi 242 milljóna nemenda í fyrra

Hitabylgjur, stormar, þurrkar og flóð héldu einum af hverjum sjö nemendum í heiminum frá skólastofunni á síðasta ári

Stúlkur í þorpinu Mohammad Ramzan Jamot í Pakistan standa við gamla skólann sinn sem skemmdist í flóðum árið 2022. UNICEF hefur síðan þá komið upp nýjum skóla í þorpinu sem ætlað er að standast ágjöf veðurguðanna. Mynd: UNICEF/UN0701878/Zaidi

Náttúruhamfarir vegna loftslagsbreytinga höfðu áhrif á menntun 242 milljóna nemenda í 85 löndum á síðasta ári samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í dag í tilefni Alþjóðadags menntunar.

 Skýrslan, sem ber yfirskriftina „Learning Interrupted: Global Snapshot of Climate-Related School Disruptions in 2024“ skoðar í fyrsta skipti loftslagshættur sem urðu þess valdandi að skólum var annað hvort lokað eða verulegt rask varð á skólastarfi og menntun vegna áhrifa þeirra og hver áhrifin voru á börn.

Hitabylgjur voru helsta orsök raskana á skólastarfi á síðasta ári. Svo dæmi séu tekin trufluðu hitabylgjur nám 118 milljóna nemenda bara í aprílmánuði síðastliðnum. Í Bangladess og Filippseyjum voru víðtækar skólalokanir í apríl og á sama tíma þurfti að stytta skóladaginn um tvær klukkustundir í Kambódíu. Í maí náði hitastigið 47 gráðum í Suður-Asíu með tilheyrandi hættu fyrir börn.

„Börn eru eðlilega viðkvæmari fyrir hvers kyns hamfaraveðri, hvort heldur sem er öflugri og tíðari hitabylgjum, stormum, þurrkum eða flóðum,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF í tilkynningu um skýrsluna í tilefni Alþjóðadags menntunar.

„Á síðasta ári héldu veðuröfgar einum og hverjum sjö nemendum í heiminum frá skólastofunni, ógnuðu lífi þeirra, öryggi og velferð og höfðu þar með áhrif á menntun þeirra til lengri tíma.“

Margþætt hætta

Sum ríki glímdu við margþættar loftslagshættur eins og til dæmis Afganistan þar sem í ofanálag við hitabylgjur urðu alvarleg skyndiflóð sem skemmdu eða eyðilögðu 110 skóla í maí síðastliðnum og raskaði námi þúsunda nemenda.

Tíðustu truflanirnar urðu í septembermánuði, sem í mörgum löndum markar upphaf skólaárs. Í að minnsta kosti 16 löndum þurfti að slíta skóla vegna veðuröfga, til dæmis vegna fellibyljarins Yagi sem hafði áhrif á 16 milljónir barna í Austur-Asíu og Kyrrahafi.

Enginn heimshluti varð fyrir meiri áhrifum en Suður-Asía á síðasta ári þar sem nám 128 milljóna nemenda raskaðist vegna þessa og í Austur-Asíu og Kyrrahafi 50 milljóna. El Nino hélt áfram að skaðleg áhrif á nám barna í Afríku með mikilli vætutíð og flóðum í austurhluta Afríku og alvarlegum þurrkum í suðurhluta heimsálfunnar.

Tímabundið skólahúsnæði sem UNICEF kom upp í þorpinu Allah Dina Channa í Pakistan eftir að grunnskóli barna skemmdist illa í hamfaraflóðum í kjölfar monsúnrigninga. Mynd: UNICEF/UN0701878/Zaidi

Áhrifin verst fyrir stúlkur

Í brothættum byggðum hafa viðvarandi skólalokanir þau áhrif að nemendur eru síður líklegri til að snúa aftur til náms að þeim loknum, sem aftur gerir þau berskjaldaðri gagnvart hættum barnahjónabands og -þrælkunar. Rannsóknir sýna að þetta kemur verst niður á stúlkum sem eru í aukinni hættu á að flosna upp úr námi og þola kynbundið ofbeldi í kjölfar hamfara.

Á heimsvísu var menntakerfið þegar víða að bregðast milljónum barna. Skortur á menntuðum kennurum, yfirfullar skólastofur og ójöfnuður í gæðum og aðgengi að menntun hafa lengi orsakað menntakrísu meðal barna heimsins sem loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra auka enn á. 

Greiningin sýnir að yfirgnæfandi meirihluta þeirra barna sem urðu verst úti komu frá lágtekjuríkjum, þó enginn heimshluti hafi farið varhluta af afleiðingum þessa. Til dæmis komu ofsafengnar rigningar og flóð á Ítalíu í september niður á námi rúmlega 900 þúsund nemenda og svo 13 þúsund barna mánuði síðar á Spáni.

Greining skýrslunnar bendir á að skólar og menntakerfi eru yfirhöfuð illa búin til að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum veðuröfga vegna loftslagsbreytinga, þar sem fjárfestingu skortir verulega í menntatengdum loftslagsaðgerðum.

Verðum að vera tilbúin að takast á við framtíðina

UNICEF vinnur með stjórnvöldum og samstarfsaðilum um allan heim við að styðja við breytingar og uppbyggingu til að sporna við og auka þrautseigju samfélaga og skólastofnana til að takast á við afleiðingar hamfarahlýnunar. Sem dæmi má nefna Mosambík þar sem líf barna raskast reglulega vegna fellibylja, þar á meðal í tvígang bara síðustu tvo mánuði. UNICEF hefur komið að byggingu rúmlega 1.150 loftslagsþolinna skólastofa í nærri 230 skólum til að bregðast við þessu.

Í flaggskipsskýrslu sinni, State of the World‘s Children, í nóvember síðastliðnum, greindi UNICEF frá því að búist sé við að veðuröfgar vegna loftslagskrísunnar muni aukast og ná víðar á árunum 2050-2059. Átta sinnum fleiri börn muni þá glíma við alvarlegar hitabylgjur og þrefalt fleiri við hamfaraflóð samanborið við fyrsta áratug þessarar aldar.

UNICEF kallar því eftir því að þjóðarleiðtogar og einkageirinn geri allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda börn gegn auknum og skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga. Meðal annars með því að tryggja að loftslagsáætlun sé til staðar í hverju ríki með fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum og þjónustu eins og menntun og auka þolgæði þeirra gagnvart loftslagshamförum. Sem og draga með fullnægjandi hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

„Menntun er ein af þeirri grunnþjónustu sem hvað oftast verður fyrir barðinu á loftslagsháska. Samt er það málaflokkurinn sem oftast er litið framhjá í umræðunni og stefnumálum. Framtíð barna verður að vera í forgrunni allra aðgerða og áætlana í loftslagsmálum,“ segir Russell að lokum.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér á vef UNICEF.

Fleiri
fréttir

23. janúar 2025

Loftslagskrísan raskaði námi 242 milljóna nemenda í fyrra
Lesa meira

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira
Fara í fréttasafn