14. nóvember 2023

„Líf barna á Gaza hangir á bláþræði“

Heilbrigðisþjónusta á Gaza er nánast engin í kjölfar stöðugra árása á spítala og heilbrigðisstofnanir á svæðinu. Lífi hvers barns er ógnað og fara aðstæður versnandi með hverjum deginum.

Undanfarinn sólarhring hefur allri starfsemi á sjúkrahúsunum Al-Rantisi og Al-Nasr nánast verið hætt þar sem aðeins einn lítill rafall knýr gjörgæsludeild og nýburadeild spítalans áfram. Harðar árásir eiga sér stað á svæðinu en mikið er af börnum á spítalanum.  

Al-Nasr barnaspítalinn hefur skemmst ítrekað en eldsneytisskortur er yfirvofandi og án eldsneytis er ekki hægt að halda björgunaraðstoð áfram á sjúkrahúsum.  

„Það er verið að neita börnum um réttindi til lífs og heilsu,“ sagði Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. „Vernd sjúkrahúsa og afhending sjúkragagna er bundin í alþjóðleg lög um stríðsátök og þeim ber að fylgja,“ sagði Khodr.  

Spítalar og heilbrigðisstofnanir á mið- og suðursvæðum Gaza-svæðisins eru nú þegar yfirfull af sjúklingum og særðum en sífellt fleiri þurfa á bráðnauðsynlegri læknisaðstoð að halda og streyma inn á spítalana.   

Heilbrigðisþjónusta fyrir börn víðsvegar um Gaza-svæðið var takmörkuð og viðkvæm fyrir stríðsátökin þar sem heilbrigðisþjónusta var ófullnægjandi og þörf var á innviðum, lækningatækjum og þjónustu. Nú til viðbótar liggur vatnsþjónusta niðri, sem og rafmagnsleysi er yfirvofandi.  

Meira en 1,5 milljónir manna eru á vergangi, þar á meðal 700 þúsund börn sem eiga nú í erfiðleikum með að nálgast hreint vatn og búa til viðbótar við hræðilegan ótta og skelfilegar hreinlætisaðstæður. Hættan á vatnsbornum sjúkdómum, sem og öðrum sjúkdómum, eykst dag frá degi og ógnar börnum sérstaklega. 

„Líf barna á Gaza hangir á bláþræði, sérstaklega þeirra sem búa í norðurhluta Gaza. Þúsundir barna eru enn á svæðinu og hafa engan stað að flýja á. Saklaus börn eru í hættu og ítrekum við því ákall um að árásum á heilbrigðisstofnanir verði hætt þegar í stað og að eldsneyti og sjúkragögn verði send til sjúkrahúsa víðs vegar um allt Gaza, þar á meðal norðurhluta svæðisins,“ sagði Khodr.  

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn