17. september 2024

Leikarar framtíðarinnar fara á kostum í nýrri auglýsingu UNICEF á Íslandi 

Hópur barna flytur ljóð Braga Valdimars í áhrifamikilli auglýsingaherferð sem fór í loftið í dag – Ákall til þjóðarinnar að „búa til pláss“ í hjartanu sínu fyrir réttindi barna á 20 ára afmæli UNICEF á Íslandi  

Það var mikil gleði á sunnudag þegar börn sem fara með aðalhlutverkið í nýrri auglýsingu UNICEF á Íslandi mættu á frumsýningu hennar í Bíó Paradís ásamt aðstandendum. Auglýsingin er flaggskip nýrrar áhrifamikillar herferðar UNICEF á Íslandi sem ber yfirskriftina „Búðu til pláss“ og hóf göngu sína í dag í tilefni 20 ára afmælisárs landsnefndar UNICEF á Íslandi.  

Auglýsingaherferðin er unnin í samstarfi við Brandenburg en aðalauglýsingin er framleidd af Sensor, leikstýrt af Erlendi Sveinssyni, framleidd af Kára Úlfssyni og koma 20 börn að gerð hennar sem aðalleikarar. Voru börnin hæstánægð með útkomuna eftir frumsýningu auglýsingarinnar á sunnudag og stolt þeirra yfir glæsilegri frammistöðu sinni leyndi sér ekki. 

„Búðu til pláss– í hjartanu þínu” 

Yfirskrift átaksins, Búðu til pláss, er fengin úr ljóði Braga Valdimars Skúlasonar „Pláss“ sem hann orti fyrir nokkrum árum um stöðu barna á flótta. Ljóðið og skilaboð þess eiga enn við enda var það valið af meirihluta grunnskólabarna til flutnings í Stóru upplestrarkeppninni í vor.  

Skilaboðin tala líka fallega inn í verkefni og markmið UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Síðastliðin 20 ár hafa tugþúsundir landsmanna valið að búa til pláss í hjartanu sínu fyrir réttindi barna með því að gerast Heimsforeldrar UNICEF og styðja þannig við þessi markmið með mánaðarlegum framlögum.   

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi: 

„Starf UNICEF hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna í fjölkrísuheimi þar sem réttindi og velferð barna eru of víða fótum troðin vegna stríðsátaka, fátæktar, hungurs og hamfara. Við þurfum ekki að líta lengi í kringum okkur til að sjá hversu mikilvægt það er nú fyrir okkur öll að búa til pláss í hjartanu okkur fyrir von, frið og samkennd. Að virkja samtakamátt okkar til að gera heiminn að betri stað fyrir öll börn. Í 20 ár hefur landsnefnd UNICEF á Íslandi veitt tugþúsundum landsmanna vettvang til að gera einmitt það og ár eftir ár er hlutfallslegur fjöldi Heimsforeldra á Íslandi sá hæsti innan UNICEF á heimsvísu. Þetta er heimsmet sem við getum öll átt þátt í. Búum til pláss í hjartanu okkar fyrir börn sem þurfa stuðning, vernd og mannúðaraðstoð.“  

Í átakinu nú hefur UNICEF á Íslandi fengið til samstarfs við sig mörg fyrirtæki og stofnanir sem ætla að svara kallinu og „búa til pláss“ fyrir málstaðinn í nærumhverfi sínu, daglegu starfi, húsnæði og auglýsingaplássum og þannig leggja Heimsforeldrasöfnun okkar lið.  

------- 

Hægt er að sjá auglýsinguna „Búðu til pláss“ í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan og á YouTube-síðu UNICEF á Íslandi.

Búðu til pláss í hjartanu þínu og vertu Heimsforeldri UNICEF. Skráðu þig núna.

Meðfylgjandi myndir tók Laufey Björk Ólafsdóttir á frumsýningunni í Bíó Paradís á sunnudag og við tökur á auglýsingunni á dögunum.

Fleiri
fréttir

17. september 2024

Leikarar framtíðarinnar fara á kostum í nýrri auglýsingu UNICEF á Íslandi 
Lesa meira

13. september 2024

UNICEF eykur viðbragð sitt við mpox-faraldri í Kongó
Lesa meira

10. september 2024

Enginn fyrsti skóladagur hjá 45 þúsund fyrstubekkingum á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn