14. janúar 2025

Leifar stríðs ógna lífi barna löngu eftir að sprengjurnar þagna

Yfirlýsing Ricardo Pires, samskiptastjóra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Palais des Nations í Genf.

Móðir og barn í þorpinu Obada í Damascus-héraði. Mynd úr safni: UNICEF/UNI707664/Sargi

„Nú þegar von um frið ríkir meðal sýrlenskra barna halda ósprungnar sprengjur liðinna ára áfram að kosta sláandi fjölda barna lífið þar í landi,“ sagði Ricardo Pires, samskiptastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á vikulegum blaðamannafundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag.

Hér fylgir yfirlýsing hans í heild sinni en í henni benti Pires á að bara í desember síðastliðnum hafi UNICEF borist tilkynningar um 116 tilfelli þar sem börn ýmist létu lífið eða særðust af völdum sprengjuleifa.

„Það gerir að meðaltali fjögur börn á dag, sem er sláandi, en líklega er fjöldinn enn meiri í raun. Síðastliðin 9 ár hafa komið upp 422.000 tilfelli þar sem ósprungnar sprengjur valda mannskaða víðs vegar um Sýrland. Áætlað er að í helmingi þessara tilfella hafi barn átt í hlut. Um allt land standa börn frammi fyrir þessari gríðarlega hættulegu og oft ósýnilegu ógn.“

Tryggja þarf öryggi

„Þegar fólksflótti hófst á ný í kjölfar aukinna átaka í lok nóvember jókst hættan af þessu enda rúmlega 250 þúsund manns sem neyddust þá til að flýja stigvaxandi átök. Fyrir börn og þá íbúa Sýrlands sem voru ýmist að reyna að flýja eða snúa aftur til heimaslóða sinna var hættan vegna ósprunginna sprengja stöðug.“

„Nú þegar viðræður um enduruppbyggingu halda áfram og alþjóðsamfélagið undirbýr aðstoð svo Sýrlandi geti fetað nýjar slóðir friðar og stöðugleika fyrir börn, er áríðandi að fjárfesta í leiðum til að tryggja öryggi þeirra á jörðu niðri og hreinsa upp banvænar leifar þessa stríðs.“

„Rúmur áratugur af átökum gerir það að verkum að þessar sprengjur leynast á víð og dreif um samfélög Sýrlands sem og aðrar leifar stríðsins. Áætlað er að 324.000 ósprungnar sprengjur séu þar á meðal.

„Þessi ógn hefur áhrif á um 5 milljónir barna sem búa á svæðum þar sem ósprungnar sprengjur og jarðsprengjur leynast víða, enda eru þær nú helsta dánar- og slysaorsök meðal barna í landinu. Í hverju skrefi leynist hættan á ólýsanlegum harmleik.“

Fótboltaleikur varð að harmleik

„Nýverið hitti ég hinn 12 ára gamla Abdul í útjaðri Hama. Þann 18. desember síðastliðinn var hann að leika sér í fótbolta með vinum sínum fyrir aftan húsið hans þegar einn úr hópnum steig á eitthvað glansandi í jörðinni.“

„Mikil sprenging varð í kjölfarið sem kostaði Mohamed, 15 ára gamlan frænda Abduls, lífið. Abdul sjálfur og 10 ára gamall bróðir hans særðust einnig í sprengingunni og eru nú að jafna sig eftir mörg beinbrot á hand- og fótleggjum. Þeir geta ekki lengur gengið án aðstoðar og glíma nú báðir við sálrænt áfall atburðarins. Sögur sem þessar eru alltof algengar.“

„Móðir Abduls grét þegar hún sagði mér af þessum skelfilega atburði og minntist á að síðast í gær létu þrjú börn lífið eftir að hafa í sakleysi sínu fundið handsprengju á leikvelli og tekið hana með sér heim.“

„Jafnvel þó börn lifi sprengingar sem þessar af þá getur líf þeirra breyst varanlega. Meiðsli og örorka af völdum þessa geta leitt til þess að þau geta aldrei snúið aftur til skóla eða það reynst þeim erfitt að fá fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í kjölfarið. Þessara barna bíður nýtt stríð, við einangrun og takmörkuð tækifæri.“

Aðgerða er þörf

„En það eru hægt að gera eitthvað í dag til að gera líf þessara barna betra og bærilegra.“

„Við verðum að krefjast mannúðaraðgerða til að leita að, finna og farga þessum stríðsleifum til að tryggja öryggi samfélaga. Við þurfum að auka fræðslu um hættur sprengjuleifa, jarðsprengja og annarra ósprunginna sprengja svo börn viti hvað beri að forðast. Við verðum að veita eftirlifendum nauðsynlegan og umfangsmikinn stuðning– þar á meðal heilbrigðisþjónustu, endurhæfingu og sálræna aðstoð– svo þau fái unnið úr áfallinu og lifað mannsæmandi lífi.“

„Við skuldum þessum börnum meira en bara að hlusta. Við þurfum aðgerðir. Það er engin von á enduruppbyggingu í Sýrlandi þegar svo mikil eyðilegging liggur í leyni á jörðinni í öðru hverju skrefi. Sýrland mun aldrei komast yfir þetta skelfilega tímabil stríðs og átaka ef börn geta ekki verið verið örugg á gangi eða leik utandyra í nánustu framtíð.“

„Hver einasti dagur án aðgerða eykur þessa ógn og óöryggi barna í Sýrlandi. Börn sem lifað hafa alla sína ævi við hættur stríðs, eiga skilið að búa við öryggi það sem eftir er.“

------------------------ 

Þýðing á yfirlýsingu Ricardo Pires, samskiptastjóra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem staddur er í Damascus.

Fleiri
fréttir

14. janúar 2025

Leifar stríðs ógna lífi barna löngu eftir að sprengjurnar þagna
Lesa meira

08. janúar 2025

Blóðug byrjun á árinu fyrir börnin á Gaza
Lesa meira

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira
Fara í fréttasafn