19. nóvember 2022

Kynþáttafordómar og mismunun gegn börnum útbreitt vandamál á heimsvísu 

Ný skýrsla UNICEF í tilefni Alþjóðadags barna – UNICEF hvetur almenning til að ganga í Réttindaliðið

Kynþáttafordómar og mismunun gegn börnum, meðal annars á grundvelli þjóðernis, tungumáls, kynhneigðar og trúar, er ríkjandi vandamál um allan heim. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem gefin er út í tilefni Alþjóðadags barna 20. nóvember næstkomandi. 

 Skýrslan, þar sem staða mála í 22 löndum er skoðuð og ber yfirskriftina „Rights denied: The impact of discrimination on children, varpar ljósi á hvernig kynþáttafordómar og mismunun hafa skaðleg áhrif á menntun baarna, heilbrigði þeirra, aðgengi að fæðingaskráningu og sanngjarna málsmeðferð fyrir dómstólum og dregur fram það margvíslega ójafnrétti sem mismunandi minnihlutahópar sæta. 

 Skýrslan sýnir hvernig börn sem tilheyra jaðarsettum kynþátta-, tungumála- og trúarhópum eru langt á eftir jafningjum sínum í lestrarfærni í þessum 22 löndum. Í aldurshópnum 7-14 ára er þessi hópur tvöfalt lakari á sviði grunnlestrarfærni en aðrir hópar. Mismunun og útilokun býr til fátæktargildrur sem flytjast milli kynslóða með afleiðingum á borð við verri heilsu, verri næringu og lakari menntun, eykur líkur á fangelsun, hærri óléttutíðni hjá unglingsstúlkum, lægra atvinnustigi og tekjumöguleikum í framtíðinni.

Börn upplifa mismunun daglega 

Ein af meginstoðum Barnasáttmálans er bann við mismunun. Þar er skýrt tekið fram að stjórnvöldum beri að vernda öll börn gegn hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, kynhneigðar, þjóðernis, fötlunar, fátæktar, tungumáls eða trúar. Raunin er þó sú, einsog skýrsla UNICEF sýnir, að mismunun gegn börnum er útbreidd út um allan heim og hefur heimsfaraldur COVID-19 afhjúpaði enn frekar djúpt misrétti innan samfélaga. 

Í skýrslunni er varpað ljósi á hvernig börn og ungmenni eru að upplifa mismunun og fordóma dagsdaglega. Í könnun þar sem 407 þúsund svör bárust sögðust 63% barna og ungmenna að mismunun væri algeng í þeirra nærumhverfi, helmingur sagðist hafa upplifað slíkt sjálf eða einhver nærkominn þeim. 

 Það hefur orðið bakslag í réttindabaráttunni víða um heim og er Ísland þar ekki undantekning. Vaxandi hatursorðræða og ofbeldi eru áhyggjuefni í íslensku samfélagi og börnum mismunað vegna kynhneigðar, kynþáttar, fötlunar eða uppruna meðal annars. UNICEF á Íslandi gerði einnig könnun meðal barna á Íslandi og var meginþorri hátt í 300 svarenda á aldrinum 10-17 ára. Börnin voru meðal annars spurð að því hvort þau telji öll börn í lífi sínu vera jöfn og svöruðu um 40% því neitandi. Ástæða ójöfnuðarins var misjöfn, en fátækt var sá þáttur sem oftast var nefndur.  

UNICEF á Íslandi sendir ákall til almennings og stjórnvalda 

Í tilefni alþjóðadags barna framleiddi UNICEF á Íslandi myndband með fjölda talsmanna og sendi frá sér áskorun til almennings og stjórnvalda um að taka afstöðu gegn fordómum og mismunun í samfélaginu og ganga í Réttindalið UNICEF. Öflugasta vopnið gegn fordómum, hatursorðræðu og mismunun er fræðsla og upplýstar samræður. Vill UNICEF með þessu auka þekkingu á Barnasáttmálanum og réttindum barna og hvetja fólk til að líta í eigin barm og koma fram við öll börn af virðingu, hvort heldur sem er í eigin persónu eða á netinu. Hægt er að skrifa undir ákallið og ganga í Réttindaliðið á www.unicef.is.  

„Barnasáttmálinn var samþykktur af þjóðarleiðtogum heimsins fyrir rúmum þrjátíu árum til að standa vörð um réttindi barna og nú er það í okkar höndum að halda þeirri vinnu áfram. Við getum, og við verðum, að grípa til aðgerða gegn ójafnrétti, gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda börn gegn mismunun og útilokun og gefa öllum börnum tækifæri til að rækta hæfileika sína. Við vonum því að sem flestir taki undir ákall okkar og gangi í Réttindaliðið,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

  

 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn