30. júní 2021

Krónan og viðskiptavinir leggja 8,3 milljónir króna til dreifingar bóluefna gegn COVID-19

Rúmar 8,3 milljónir króna söfnuðust í fjáröflunarátaki Krónunnar og viðskiptavina hennar, í samstarfi við átak UNICEF á Íslandi - Komum því til skila. Renna þær óskertar í söfnun UNICEF fyrir dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 í efnaminni ríkjum.

Rúmar 8,3 milljónir króna söfnuðust í fjáröflunarátaki Krónunnar og viðskiptavina hennar, í samstarfi við átak UNICEF á Íslandi - Komum því til skila. Renna þær óskertar í söfnun UNICEF fyrir dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 í efnaminni ríkjum. Upphæðin nægir fyrir dreifingu alls 36.280 skammta til einstaklinga í efnaminni ríkjum heimsins. Í átakinu var viðskiptavinum Krónunnar boðið að bæta 459 krónum við upphæðina þegar verslað var í verslunum og Snjallverslun Krónunnar. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og samtals gáfu viðskiptavinir Krónunnar 9070 styrki á tveimur vikum. Krónan gaf síðan krónu á móti hverri krónu sem safnaðist frá viðskiptavinum.

„Sá samtakamáttur sem við fundum meðal viðskiptavina okkar á þessum tveimur vikum sem fjáröflunarátakið stóð yfir var hreint út sagt magnaður. Upphæðin sem hægt var að styrkja um, 495 krónur, virtist viðráðanleg fyrir marga og aðferðin við innsöfnun þægileg, en spurningunni var varpað upp á sjálfsafgreiðsluskjá við lok afgreiðslu og í Snjallverslun Krónunnar. Þessi mikla þátttaka sýnir hversu mjög viðskiptavinir okkar láta sig mál af þessu tagi varða. Við erum afar stolt af því að geta lagt þessu mikilvæga bólusetningaverkefni lið og lögðum upp með að jafna þann styrk sem viðskiptavinir okkar lögðu til og tvöfalda þannig upphæðina sem við afhentum hér í dag, “ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.

„Við erum Krónunni og viðskiptavinum hennar innilega þakklát fyrir þetta myndarlega framlag í baráttunni við COVID-19. Ísland hefur náð frábærum árangri í bólusetningum en ekki er síður mikilvægt að allir eigi sama möguleika á bólusetningum. Veiran spyr ekki um landamæri og það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að sýna samstöðu. Í þúsunda tali hafa viðskiptavinir Krónunnar sýnt það í verki að þeim er umhugað um að öll ríki heimsins fái bóluefni fyrir íbúa sína. Slíkur stuðningur skiptir miklu máli, ekki einungis fjármagnið sem þarna safnast heldur einnig skilaboðin sem framtakið sendir: Við erum öll í þessu saman, “ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Enn er hægt að styðja átak UNICEF með því að senda SMS-ið COVID í númerið 1900 og tryggja þar með dreifingu bóluefnis fyrir þrjá einstaklinga.

Ákall um að gefa umframskammta bóluefna

Bóluefnum gegn COVID-19 er mjög misskipt meðal ríkja heimsins. Ef efnaminni ríki heimsins eru skilin eftir er hætta á að ný afbrigði veirunnar breiðist hratt út bæði innan þeirra og til annarra ríkja. Vart þarf að fjölyrða um hversu skelfilegar afleiðingar slíkt hefur, ekki síst á börn og þeirra framtíð. UNICEF hefur því sent út alþjóðlegt ákall þar sem skorað er á efnameiri ríki heims að gefa umframskammta sína strax í sumar. Nú þegar hafa nokkur efnameiri ríki svarað ákallinu og áætlun COVAX-samstarfsins er að dreifa 1,9 milljörðum skammta fyrir árslok 2021.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, leiðir innkaup og dreifingu bóluefnanna til efnaminni ríkja heimsins fyrir hönd COVAX-samstarfsins, sem er samstarf um 190 ríkja sem hefur að markmiði að tryggja sem jafnasta dreifingu bólu­efnis gegn kórónaveirunni meðal ­efnaminni­ ríkja heims­ins. Nú þegar hefur COVAX-samstarfið komið yfir 88 milljónum skammta til 131 efnaminni landa, má þar nefna Sýrland, Ghana, Bólivíu, Úkraínu, Mongólíu, Suður-Súdan, Fílabeinsströndina, Kambódíu, Kíribati og Afganistan.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn