28. maí 2021

Kópavogur hlýtur viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga UNICEF

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, veittu í gær Kópavogi viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga og þökkuðu sveitarfélaginu fyrir gott samstarf síðastliðin ár við innleiðingu Barnasáttmálans í starfsemi bæjarins. Ármann Kr. Ólafsson tók við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í Kópavogi.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, veittu í gær Kópavogi viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga og þökkuðu sveitarfélaginu fyrir gott samstarf síðastliðin ár við innleiðingu Barnasáttmálans í starfsemi bæjarins. Ármann Kr. Ólafsson tók við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í Kópavogi.

„Ég er afar stoltur af því að Kópavogsbær hafi innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hversu mikinn metnað við höfum lagt í innleiðinguna. Hér var unnin ítarleg greiningarvinna á högum og aðstæðum barna sem aðgerðir okkar í þágu barna byggja á. Meðal verkefna sem spruttu upp úr þessari vinnu eru mælaborð barna, sem gefur yfirlit um heilsu og líðan barna í bænum. Mælaborðið auðveldar okkur að ákvarða hvernig við ráðstöfum fjármagni í þágu barna með réttindi barna að leiðarljósi, “segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Kópavogur er annað sveitarfélagið á Íslandi sem hlýtur viðurkenninguna, en Akureyrarbær fékk viðurkenninguna í fyrra. Viðurkenninguna hlýtur sveitarfélagið til þriggja ára og á það kost á að endurnýja hana að þeim tíma liðnum.

„Það er mikið ánægjuefni að fagna hér uppskeru þrotlausrar vinnu síðastliðinna þriggja ára við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi, en Kópavogur er meðal fyrstu sveitarfélaganna til að hefja þessa vegferð hér á landi og hefur rutt brautina með metnaðarfullum hætti fyrir þau fjölmörgu sveitarfélög sem nú feta í þau fótspor. Við erum bara rétt að byrja og höfum sett okkur það markmið að að minnsta kosti 80% barna á Íslandi búi í sveitarfélagi sem vinnur eftir hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga fyrir árslok 2024,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra:

Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Mikill áhugi er meðal sveitarfélaga á að taka þátt í verkefninu og vinna nú fjórðungur allra sveitarfélaga á Íslandi að því að hljóta viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga. UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.

Mikil nýsköpun í þágu barna og ungmenna

Kópavogsbær hefur unnið markvisst að því að verða barnvænt sveitarfélag frá árinu 2018. Á undanförnum vikum hefur farið fram úttekt UNICEF á þeirri vinnu sem starfsfólk Kópavogsbæjar hefur unnið undanfarin þrjú ár og þykir ljóst að mikill metnaður ríkir í þessum efnum góður grunnur verið lagður fyrir áframhaldandi vinnu. Hefur sveitarfélagið innleitt fjölda nýrra verkefna sem hafa hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi og unnið að mikilli nýsköpun. Má þar nefna:

  • Sérstakt mælaborð um velferð barna sem félagsmálaráðuneytið nýtir sem fyrirmynd fyrir þróun mælaborðs um velferð barna fyrir ríki og sveitarfélög.
  • Sérstakur tilkynningahnappur var settur upp á I-pödum barna í 5.-10. bekk þar sem börn geta tilkynnt brot á réttindum sínum eða annarra barna beint til barnaverndar;
  • Þá hefur einnig litið dagsins ljós sérstakt ábendingasnjallforrit þar sem börn geta komið sínum ábendingum um hvað megi betur fara í bæjarfélaginu beint til bæjaryfirvalda;
  • Leitað var markvisst eftir viðhorfum barna og ungmenna og ferlar innan stjórnsýslunnar bættir til að tryggja það;
  • Fræðsla hefur verið aukin um réttindi barna bæði fyrir starfsfólk bæjarins og fyrir börn. Þá hefur orðið vitundarvakning um geðræktarmál barna og ungmenna og sérstakt geðræktarhús sett á laggirnar þar sem áhersla verður lögð á geðrækt barna;
  • Þá hefur fræðsla verið efld um mikilvægi tilkynninga þegar grunur vaknar um vanrækslu og/eða ofbeldi gagnvart barni;

„Það er heldur betur inneign hjá Kópavogi fyrir viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag. Þau stigu inn í verkefnið frá fyrsta degi af stórhug og hafa staðið undir væntingum. Það er af mörgu að taka þegar hrósa á þeim fjölmörgu verkefnum sem Kópavogur hefur sett í gang, þróað frá grunni og þorað að prófa á tímabilinu. Þó er mér líklega Geðræktarhúsið efst í huga þessa dagana, því það er svo þarft úrræði og sérstaklega sniðið til að mæta kalli barna og ungmenna eftir meiri sálrænum stuðningi. Hér er glöggt dæmi um það hvernig sveitarfélag hlustar og bregst við. Kópavogur er einungis annað sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag og það er sérstaklega þakkarvert að frumkvöðlarnir skili af sér svo metnaðarfullu og góðu verki,“ sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Ljóst er að verkefnið hefur skapað sér öruggan sess innan stjórnsýslunnar í Kópavogi og hyggjast bæjaryfirvöld halda ótvíræð áfram að vinna að því að tryggja réttindi barna.

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins. Þróun verkefnisins hófst 2016 og var unnin í samstarfi við umboðsmann barna og jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn