30. maí 2024

Kópavogur endurnýjar viðurkenningu sína sem Barnvænt sveitarfélag UNICEF

Bærinn vel að endurnýjun viðurkenningarinnar kominn

Frá viðurkenningarathöfninni í Kópavogi í dag. Á myndinni eru Anna Elísabet Ólafsdóttir, verkefnastjóri innleiðingar Barnasáttmálans, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmtastjóri UNICEF á Íslandi og fulltrúar Ungmennaráðs Kópavogsbæjar; Dagur Ingason, Bára Freydís Þórðardóttir, Fjóla Kristín Sveinbjörnsdóttir, Karen Lind Stefánsdóttir.

Í dag fagnaði Kópavogur þeim gleðilega áfanga að fá staðfesta viðurkenningu sína sem Barnvænt sveitarfélag UNICEF í annað sinn. Kópavogur hefur unnið ötullega að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína starfsemi frá árinu 2018. Það var svo vorið 2021 sem bærinn hlaut fyrstu viðurkenningu sína sem Barnvænt sveitarfélag en þær gilda í þrjú ár.  

Kópavogur er vel að endurnýjun viðurkenningarinnar kominn en síðastliðin þrjú ár hafa frekari skref verið stigin í innleiðingunni og fjölmargar aðgerðir verið framkvæmdar réttindum barna til hagsbóta. Sem dæmi má nefna að börnum eru nú tryggðar fjölbreyttari leiðir til þess að hafa áhrif á bæinn sinn, skólastarf og menningarlíf. Árleg skóla- og barnaþing hafa nú verið fest í sessi en í framhaldi af þeim eiga börn fund með bæjarstjórn þar sem bæjarfulltrúar hlusta og bregðast við tillögum barnanna og málum komið í farveg.

Þá hefur verkefnið „Okkar skóli“ verið innleitt í öllum grunn- og leikskólum en markmið þess er að veita börnum tækifæri til þess að hafa áhrif á skólaumhverfi sitt með beinum hætti. Verkefnið felst í því að hver skóli fær úthlutað upphæð sem nemur 1.000 krónum á hvert barn og börnin sjálf koma sér saman um það með lýðræðislegum hætti hvernig fjármununum er ráðstafað. Er þetta þannig bæði æfing í lýðræðislegum vinnubrögðum og skilaboð til barnanna um að skoðanir þeirra skipti máli. T.d. ákváðu börnin að bæta aðstöðu með einhverjum hætti, endurnýja leikföng, fá inn ákveðna fræðslu eða bæta tækjabúnað. Þá hefur þátttaka barna í skipulagsmálum verið aukin og samráð við börn með fötlun um þjónustu bæjarins sömuleiðis.

Sértækur stuðningur við viðkvæma hópa var efldur með ýmsum hætti í takt við gögn sem aflað hefur verið. T.d. er sérstaklega stutt við tómstundaþátttöku barna af erlendum uppruna og stuðningur við börn sem kljást við skólaforðun verið aukinn.

Í Kópavogi fer Réttindaskólum og Réttindaleikskólum einnig fjölgandi og er bærinn til fyrirmyndar í þeim efnum. Þá hefur, í takt við tæknivæðingu skólanna, einnig verið unnið mikið frumkvöðlastarf varðandi þróun á námsefni og fræðslu um stafræna borgaravitund sem er mikilvægt til að tryggja réttindi barna á netinu.

Þetta eru þó aðeins örfá dæmi um það öfluga starf sem unnið er í bænum þar sem Barnasáttmálinn er hafður að leiðarljósi.
Nánar má lesa um aðgerðirnar hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn