Síðan vopnahlé á Gaza var rofið í síðasta mánuði hafa minnst 322 börn verið drepin og 609 særst í þungum loftárásum og hernaði á jörðu niðri. Flest þessara barna voru börn á flótta sem bjuggu í tjöldum eða rústum húsa. Í dag er einn mánuður síðan mannúðaraðstoð hefur borist inn á Gaza en engum hjálpargögnum hefur verið hleypt inn síðan 2. mars síðastliðinn.
„Vopnahlé á Gaza var nauðsynleg líflína fyrir börn og von þeirra um frið. En börnum hefur enn á ný verið steypt ofan í vítahring ofbeldis og skorts. Hlutaðeigendur verða að virða skyldur sínar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og vernda börn,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza.
Rúmlega 15 þúsund börn látin
Samkvæmt tilkynningu frá UNICEF hafa nú rúmlega 15 þúsund börn verið drepin á þeim tæplega 18 mánuðum sem árásir á Gaza hafa staðið yfir og rúmlega 34 þúsund börn særst. Nærri ein milljón barna hefur ítrekað neyðst til að flýja og hafa verið svipt grundvallarréttindum sínum og þjónustu.
Á þessum tæpu 18 mánuðum hefur aldrei liðið svo langur tími sem mannúðaraðstoð er ekki hleypt inn á Gaza. Matur, vatn, skjól og sjúkragögn og heilbrigðisþjónusta en nú af afar skornum skammti. Án þessara nauðsynja er ljóst að vannæring og sjúkdómar munu aukast og leiða til enn frekari dauðsfalla.
Árásir á starfsfólk mannúðarstofnana
Mannúðarstofnanir vinna þrotlaust að því að vernda og styðja börn við þessar skelfilegu aðstæður en starfsfólk þeirra stendur einnig frammi fyrir árásum og lífshættu. Hundruð hjálparstarfsmanna hafa látið lífið og særst á þessum tíma. Árásir sem þessar eru skýrt brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og hindra að hægt sé að sinna lífsbjargandi starfi og verkefnum í þágu nauðstaddra á vettvangi.
Þrátt fyrir þessar aðstæður og hættur er UNICEF staðráðið í að halda áfram að veita börnum og fjölskyldum þá mannúðaraðstoð sem þau þurfa nauðsynlega á að halda.
Ákall UNICEF
UNICEF heldur áfram að ítreka ákall sitt um að árásum linni og vopnahléi verði komið aftur á. Mannúðaraðstoð og vöruflutningum verður að hleypa inn á Gaza og tryggja örugga dreifingu þeirra. Veik og særð börn verða að fá læknisaðstoð. Almenna borgara, börn, mannúðarastarfsfólk og nauðsynlega innviði verður að vernda og öllum gíslum verður að sleppa úr haldi.
UNICEF kallar enn eftir því að þjóðarleiðtogar nýti rödd sína og áhrif til að stöðva þessi átök og tryggja að farið sé að alþjóðalögum. Heimurinn má ekki standa hjá og horfa upp á dauða og þjáningu barna halda áfram.