03. mars 2021

Kennslustofan í heimsfaraldri

Fyrir meira en 168 milljónir barna hafa skólarnir þeirra verið lokaðir í nánast heilt ár vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Fyrir meira en 168 milljónir barna hafa skólarnir þeirra verið lokaðir í nánast heilt ár vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Ennfremur hafa um það bil 214 milljónir barna – eða 1 af hverjum 7 á heimsvísu – misst af meira en þremur fjórðu af skólaárinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gaf út í dag.

Til að vekja athygli á því neyðarástandi sem ríkir í menntamálum vegna kórónaveirunnar afhjúpaði UNICEF í dag innsetninguna „Pandemic Classroom“ við höfuðstöðvar sínar í New York. Er innsetning búin til úr 168 tómum skólaborðum og skólatöskum og táknar hvert borð milljón börn sem hafa ekki komist í skólann í heilt ár.

Með þessari innsetningu vill UNICEF senda skilaboð til ríkisstjórna heimsins um að forgangsraða opnun skóla og að bæta aðgang að menntun fyrir þau milljónir barna sem hafa ekki getað stundað fjarnám á meðan á lokunum stendur.

Horfa þarf á sérstakar þarfir hvers nemanda

Það þarf ekki að velkjast í vafa um hversu neikvæð áhrif langvarandi lokun skóla getur haft á börn, ungmenni og samfélög í heild. Meirihluti skólabarna í heiminum treystir á skólann sem ekki einungist stað til að læra heldur einnig stað þar sem þau geta átt samskipti við jafnaldra sína, fengið sálræna aðstoð, bólusetningar og heilbrigðisþjónustu. Auk þess eru skólamáltíðarnar oft næringarríkasta máltíðin sem börn fá þann daginn.

„Með hverjum deginum sem líður falla þau börn sem geta ekki farið í skólann lengra aftur úr, og eru jaðarsettustu börnin í mestri hættu. Við eigum ekki efni á að fara inn í annað ár með takmörkuðum skólaopnunum fyrir þessi börn,” segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF.

UNICEF hefur lengi varað við því að því lengur sem röskun er á skólastarfi og engin önnur tækifæri bjóðast til menntunar, því meiri hætta er á að börn flosni alveg upp úr námi. Annað ár heimsfaraldursins er að hefjast og UNICEF óttast að tala barna utan skóla muni aukast um 24 milljónir vegna farsóttarinnar.

Þegar nemendur snúa til baka í kennslustofurnar sínar munu þeir þurfa stuðning við að aðlagast og ná upp eftir langvarandi fjarveru. Áætlanir um opnanir skóla þurfa að taka tillit til þess að mörg börn hafa misst mikið úr námi og hafa ekki haft tækifæri til þess að stunda fjarnám á meðan. UNICEF hvetur stjórnvöld til að horfa á sérstakar þarfir hvers nemenda fyrir sig og veita alhliða þjónustu sem nær til stuðnings við nám, heilsu, næringar, geðheilbrigðis og vernd gegn ofbeldi. Til þess að styðja við slíkar aðgerðir hafa UNICEF, UNESCO, UNHCR, WFT og Alþjóðabankinn saman gefið út Áætlun um enduropnanir skóla, sem eru hagnýtar ráðleggingar fyrir stjórnvöld og sveitastjórnir.

Skýrsluna má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn