15. desember 2023

Improv Ísland safnaði fyrir börn í neyð á Gaza

Styrktarsýning í Þjóðleikhúskjallaranum skilaði 744 þúsund krónum í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi – Hópurinn endurtekur leikinn 28. desember kl. 19:00 og er miðasala hafin

Fólkið á bak við styrktarsýningu Improv Ísland fyrir neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi.

Improv Ísland hélt sérstaka styrktarsýning í Þjóðleikshúskjallaranum sunnudaginn 22. október fyrir neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza. Fjöldi hæfileikafólks steig þar á svið sem öll gáfu vinnu sína líkt og annað starfsfólk sem að sýningunni kom, auk þess sem allur ágóði af miða- og veitingasölu þetta kvöld rann í söfnunina.

Alls söfnuðust 744.198 krónur í þessu virðingarverða og glæsilega framtaki hópsins og færir starfsfólk UNICEF á Íslandi öllum þeim sem komu að þessari sýningu, þeim sem sóttu hana og leikhúsinu, hjartans þakkir fyrir stuðninginn.

„Þetta var það minnsta sem við gátum gert. Við höfum öll horft vanmáttug upp á þjóðarmorðið á Gaza. Þúsundir barna drepin fyrir það eitt að fæðast sem Palestínumenn. Í þessum vanmætti hugsuðum við, hvað getum við gert? Og við getum öll gert eitthvað. Það lá beinast við að halda styrktarsýningu þar sem allir gefa vinnuna sína og þannig leggja UNICEF lið enda hefur það margsinnis sýnt sig hvað þau sinna óeigingjörnu starfi í þágu barna. Við megum ekki loka augunum, sérstaklega ekki þegar saklaus börn eru að þjást,“ segir Steiney Skúladóttir, meðlimur Improv Íslands hópsins.

Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri UNICEF á Íslandi, hrósar framtaki hópsins og er þakklát fyrir stuðninginn.

„Raunveruleikinn sem börn á Gaza upplifa er ólýsanlegur og jafnvel reyndasta fólk UNICEF, sem verið hefur á mörgum af verstu átaka- og hamfarasvæðum veraldar síðustu áratugi, segist aldrei séð annað eins. Og þrátt fyrir skelfilegar aðstæður stendur starfsfólk UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, vaktina. Framtak eins og hjá Improv Ísland eru stoðirnar sem gerir UNICEF þetta kleift. Að vera með starfsfólk á vettvangi, ekki bara á Gaza heldur í yfir 190 löndum, til að bregðast við neyðarástandi þegar það skapast og sinna langtímauppbyggingu. Það er engum blöðum um það að fletta að fjármagn eins og þetta bjargar lífum. Með viðburðinum vöktu þau líka athygli á málefninu og létu sig það varða. Það eru skilaboð vonar fyrir börn á Gaza og vonin er kröftugur og lífsnauðsynlegur drifkraftur. Það er hún sem drífur okkur áfram á svona tímum. Takk kærlega, Improv Ísland,“ segir Ingibjörg.

Þess ber að geta að Improv Ísland ætlar að endurtaka leikinn og halda aðra sýningu, fimmtudaginn 28. desember kl. 19:00. Hvetjum við öll til að næla sér í miða og leggja þannig góðu málefni lið. Hægt er að kaupa miða á sýninguna hér á Tix.is

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn