17. maí 2022

Ákall UNICEF: Hækkandi matvælaverð og niðurskurður gróðrarstía fyrir alvarlega vannæringu barna

UNICEF á Íslandi hefur neyðarsöfnun vegna næringarkrísu. Stríðið í Úkraínu, efnahagsþrengingar vegna COVID og loftlagsbreytingar hafa víðtæk áhrif á matvælaverð sem auka mun vannæringu milljóna barna.

Vannært barn í Eþíópíu fær jarðhnetumauk hjá móður sinni í næringarmiðstöð UNICEF í Higlo flóttamannabúðunum. Mynd/UNICEF

Fyrir stríðið í Úkraínu hafði mikil aukning orðið á fjölda barna sem glíma við alvarlega rýrnun, en nú varar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, við því að víðtæk áhrif þess séu að skapa hættuástand og matvælakrísu sem aðeins muni versna.

Þetta kemur fram í nýrri velferðarviðvörun frá UNICEF, (e. Child Alert), sem aðeins er gefnar út þegar brýna nauðsyn krefur. Skýrslan sem ákallinu fylgir ber yfirskriftina „Severe wasting: An overlooked child survival emergency.“

„Áður en stríðið í Úkraínu fór að ógna matvælaöryggi um víða veröld voru átök, loftslagsbreytingar og heimsfaraldur COVID-19 að hafa skelfileg áhrif á getu foreldra til að gefa börnum sínum að borða,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í ákallinu. „Heimurinn er á leifturhraða að verða púðurtunna fyrir sjúkdóma hjá börnum sem vel er hægt að koma í veg fyrir, sem og fyrir börn sem glíma við rýrnun.“

Rýrnun er alvarlegasta birtingarform vannæringar og segir UNICEF að í dag séu að minnsta kosti 10 milljónir barna sem ekki hafa aðgengi að bestu meðferðinni við þessum lífshættulega kvilla. Það er, næringarríku jarðhnetumauki.

Leggðu þitt af mörkum með því að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi.

Stríð, loftlagsvá og þurrkar skapa neyðarástand

UNICEF varar við því að samspil nokkurra lykilþátta séu nú að skapa neyðarástand í fæðuöryggi og þar með aukningu alvarlegrar rýrnunar hjá börnum á heimsvísu. Fremst í flokki sé stríðið í Úkraínu, efnahagserfiðleikar ríkja vegna heimsfaraldursins og viðvarandi þurrkatíð í mörgum löndum vegna hamfarahlýnunar.

Gangi spár eftir þá mun verð á næringarríku jarðhnetumauki hækka um 16% á næstu sex mánuðum vegna skarpra hækkana á hráefnisverði. Bara þessi hækkun gæti skilið 600 þúsund börn eftir án aðgengis að þessari lífsnauðsynlegu meðferð.

„Fyrir milljón börn ár hvert skilja þessir litlu pokar af jarðhnetumauki á milli lífs og dauða. Sextán prósenta hækkun hljómar viðráðanleg í alþjóðlegu samhengi matvöruverðs, en við enda þessarar aðfangakeðju er vannært barn sem á allt sitt undir,“ segir Russell.

Hættulegasta form vannæringar

Alvarleg rýrnun, þar sem börn teljast of grönn miðað við hæð með þeim afleiðingum að ónæmiskerfi þeirra veikist verulega, er bráðasta, sýnilegasta og lífshættulegasta birtingarform vannæringar. Á heimsvísu þjást 13,6 milljónir barna undir fimm ára aldri af þessum kvilla í dag og til hans má rekja dauða 1 af hverjum 5 börnum í þessum aldurshópi. 

Í Suður-Asíu er tíðni alvarlegrar rýrnunar verst þar sem nærri 1 af hverjum 22 börnum glíma við kvillann. Það er þrefalt meira en í Afríku neðan Sahara. Og víða um heim eru ríki að sjá fordæmalausa tíðni alvarlegrar rýrnunar. Í Afganistan er áætlað að 1,1 milljón barna muni þjást af kvillanum á þessu ári. Helmingi fleiri en árið 2018 þar í landi. Þurrkatíð á Afríkuhorninu er að verða þess valdandi að áætlað er að fjöldinn þar fari úr 1,7 milljón í 2 milljónir barna og 26% aukningu er spáð á Sahel-svæði Afríku samanborið við 2018.

Í Ndjamena í Tjad er ummál upphandleggs þessa barns mælt og sýnir að það þjáist af vannæringu.

UNICEF skorar á þjóðir að bregðast við 

Velferðarviðvörun UNICEF varar einnig við því að áhyggjuefni sé hversu lág framlög til baráttunnar gegn rýrnun séu nú og muni fara lækkandi á komandi árum. Lítil von sé að þau muni ná því sem var fyrir heimsfaraldur COVID-19 fyrr en í fyrsta lagi 2028. Á heimsvísu þá fari aðeins um 2,8 prósent af opinberri þróunaraðstoð til heilbrigðisþjónustu í baráttu gegn rýrnun. Og aðeins 0,2 prósent af heildarþróunaraðstoð.

Til að tryggja að öll börn fái viðeigandi meðferð við alvarlegri rýrnun og vannæringu kallar UNICEF meðal annars eftir: 

  • Að stjórnvöld auki opinber þróunaraðstoðarframlög sín til næringaraðstoðar um að minnsta kosti 59% umfram það sem þau voru árið 2019 svo hægt verði að ná til barna í þeim 23 ríkjum sem verst eru sett.
  • Þjóðir taki meðhöndlun við rýrnun undir hatt heilbrigðisþjónustu og langtímaþróunaraðstoðar svo öll börn njóti góðs af meðferðaraðstoð, ekki aðeins þau sem búa við mannúðarkrísu.
  • Tryggð verði sértæk ráðstöfun fyrir næringarfæði í fjárhagsáætlunum til að takast á við hungurkrísuna í heiminum, svo hægt sé að bregðast tafarlaust við þörfum barna sem glíma við alvarlega rýrnun. 

„Það er engin ástæða til að barn þjáist vegna alvarlegrar rýrnunar. Ekki þegar við höfum lausnir til að takast á við og koma í veg fyrir það. Tíminn er að renna út til að virkja samtakamátt alþjóðasamfélagsins til að koma í veg fyrir, greina og meðhöndla vannæringu áður en ástandið verður enn verra en það er,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, að lokum.

UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna þessarar vannæringarkrísu. Allar nánari upplýsingar um styrktarleiðir má finna hér á vef okkar.

Hægt er að leggja frjáls framlög inn á reikning
701-26-102015

kt. 481203-2950.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn