20. október 2023

Hvernig veitir UNICEF neyðaraðstoð til barna á Gaza?

Frá því að átök hófst á Gaza ströndinni þann 7. október síðastliðinn hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, verið í viðbragðsstöðu og beðið eftir aðgangi að svæðinu til þess að veita neyðaraðstoð. Nýjustu fregnir eru að á næstu dögum virðast hjálpargögn loks geta komist til skila.

Átök brutust út í Ísrael og Gaza þann 7. október síðastliðinn og síðan þá hafa fréttir af stigmagnandi árásum og stórfelldum brotum gegn börnum, þar á meðal dráp og limlestingar, mannrán og árásir á almenna borgara, verið ofarlega í huga margra. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur verið í viðbragðsstöðu frá því að átökin hófust og nú er uppi merki um að hjálpargögn berist loks til barna og fjölskyldna í neyð.

Samkvæmt upplýsingum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, hafa yfir 4 þúsund manns týnt lífi og tæplega 2500 börn særst í átökunum. Tala látinna hækkar með hverri klukkustund sem líður en UNICEF hefur kallað eftir tafarlausu vopnahléi og að stríðandi fylkingar verndi börn og almenna borgara.

Vatn er af skornum skammti á Gaza og reiða íbúar sig á vatnsbrunna og vatnshreinsibúnað sem knúinn er rafmagni og eldsneyti. Í kjölfar átakana var lokað fyrir allt rafmagn á svæðinu og mikill skortur ríkir á eldsneyti sem veldur því að fólk er í hættu á að þjást af ofþornun og neyðist til þess að neyta óhreins vatns sem eykur líkurnar á lífshættulegum vatnsbornum sjúkdómum. Aðstæðurnar eiga sér enga hliðstæðu og eru nú þegar yfir 600 þúsund manns á flótta innan Gaza.  

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ítrekar að börn eiga aldrei að þurfa að upplifa stríð og að skólar, sjúkrahús og neyðarskýli eiga aldrei að vera skotmörk stríðandi fylkinga. Átökin hafa sett mark sitt á andlega líðan barna á Gaza til frambúðar, sem mörg hver hafa misst fjölskyldur sínar og heimili.

UNICEF veitir neyðaraðstoð á svæðinu

Samkvæmt nýjustu upplýsingum, þá munu vörubílar sem bera hjálpargögn meðal annars frá UNICEF loks fá aðgang að Gaza í gegnum landamæri við Egyptaland. Yfir helmingur íbúa Gaza strandarinnar eru börn og er markmið UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, að dreifa sjúkragögnum fyrir 1600 manns til sjúkrahúsa, vatnshreinsiefni fyrir vatnshreinsistöð á Gaza sem stutt er af UNICEF, 50 þúsund lítrum af eldsneyti fyrir rekstur vatns- og hreinlætisaðstöðu, 500 afþreyingarsett fyrir börn í neyðarskýlum, og fjárhagslega aðstoð til um þúsund barna og heimila þeirra, og margt fleira. Hjálpargögnin verða flutt yfir landamærin undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, bregst einnig við með því að veita sálfélagslega aðstoð og ráðgjöf til fjölskyldna og barna sem takast nú á við lífshættulegar aðstæður og áföll í kjölfar átakanna. UNICEF gerir ráð fyrir að veita yfir 150 þúsund manns neyðaraðstoð á Gaza og meðal þeirra birgða sem nú þegar eru við landamærin eru 2000 hreinlætispakkar fyrir stúlkur og konur, fjögur færanleg salerni, vatnsbirgðir fyrir 270 þúsund manns, vatnshreinsiarefni fyrir vatnshreinsistöðvar sem útvegar yfir 75 þúsund manns vatni í heilan mánuð, tjöld, teppi, og afþreyingarefni fyrir börn, fjóra neyðarlyfjaheilsupakka og 25 bráðaheilbrigðissett sem áætlað er að gagnist ym 195 þúsund manns í einn mánuð.

Stuðningur þinn skiptir máli. Neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn vegna átakanna á Gaza heldur áfram. Þú getur lagt söfnunni lið með því að:

Senda SMS-ið NEYÐ í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur (Hringdu, Nova og Síminn).
Veita frjáls framlög: 701-26-102015, kennitala: 481203-2950
Nánari upplýsingar hér: https://www.unicef.is/neydarsofnun-fyrir-born-a-gaza

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn