23. júní 2022

Hungurkrísa: Á hverri mínútu verður til vannært barn

UNICEF sendir þjóðarleiðtogum ákall fyrir fund G7-ríkja – 8 milljónir barna í lífshættu í fimmtán ríkjum

Hin 12 mánaða gamla Haoua á barnaspítalanum í Bol í Tjad ásamt móður sinni Fatime Abakar. Haoua vegur 4,8 kíló og er vannærð en fær meðhöndlun með næringarfæði. Mynd/UNICEF

Nær átta milljónir barna undir fimm ára aldri, í þeim fimmtán ríkjum sem verst hafa orðið úti í hungurkrísunni sem nú geisar, eru í lífshættu vegna alvarlegrar vannæringar. Þau þurfa tafarlausa næringaraðstoð því talan hækkar með hverri mínútunni. UNICEF sendi í dag frá sér neyðarákall til þjóðarleiðtoga í aðdraganda fundar G7-ríkjanna svokölluðu.

Frá ársbyrjun hefur neyðarástand í matvælaöryggi í heiminum gert það að verkum að 260 þúsund börn aukalega, eða eitt á hverri mínútu, glímir við rýrnun– alvarlegustu tegund vannæringar í þeim fimmtán ríkjum sem verst eru sett. Þar á meðal eru lönd Afríkuhornsins svokallaða og Mið-Sahel. Þessi aukning er ofan á fyrri viðvaranir UNICEF í síðasta mánuði um ástand vannæringar hjá börnum.

„Við sjáum nú að það er farið að kvikna í þessari púðurtunnu sem alvarleg vannæring barna er á þessum svæðum og við vöruðum við,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Matvælaaðstoð er nauðsynleg, en við getum ekki bjargað sveltandi börnum með hveitipokum. Við þurfum að ná til þessara barna með næringarfæði áður en það verður um seinan.“

Síhækkandi matvælaverð, sem meðal annars má rekja til stríðsins í Úkraínu, viðvarandi þurrkar vegna hamfarahlýnunar, stríðsátök, efnahagsþrengingar og aðrar afleiðingar heimsfaraldurs COVID-19 auka sífellt á neyð barna undir fimm ára aldri.

UNICEF er því að setja stóraukinn kraft í mannúðaraðstoð sína í þessum fimmtán ríkjum þar sem hungur ógnar nú lífi barna mest. Þetta eru Afganistan, Búrkína Fasó, Tjad, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Eþíópía, Haítí, Kenía, Madagaskar, Malí, Níger, Nígería, Sómalía, Suður-Súdan, Súdan og Jemen.

Setaish er aðeins tæplega þriggja mánaða en var lögð inn á sjúkrahús í Kabúl í Afganistan vegna alvarlegrar bráðavannæringar. Mynd/UNICEF

Innan þessara fimmtán ríkja áætlar UNICEF að minnst 40 milljónir barna séu aðeins að fá algjöra lágmarksnæringu til að vaxa og dafna með eðlilegum hætti á fyrstu árum ævinnar. 21 milljón barna til viðbótar glími þá við alvarlegt fæðuóöryggi, sem þýðir að þau skortir aðgengi að fæðu til að mæta lágmarksþörfum þeirra, sem setur þau aftur í mikla hættu á alvarlegri vannæringu og rýrnun.

Nú þegar þjóðarleiðtogar undirbúa fund G7-ríkja hefur UNICEF sent út neyðarákall um 1,2 milljarða dala svo hægt verði að bregðast skjótt við og veita næringaraðstoð og víðtæka meðhöndlun til að afstýra dauða milljóna barna í þessum fimmtán ríkjum, þar á meðal meðgönguaðstoð, næringaraðstoð fyrir nýbura, ung börn og næringaraðstoð fyrir börn sem þegar glíma við alvarlega rýrnun og vannæringu með næringarfæði.

„Það er erfitt að útskýra hvað það þýðir fyrir barn að glíma við „alvarlega rýrnun“ en þegar þú hittir barn sem þjáist af þessu lífshættulegasta formi vannæringar, þá munt þú skilja – og aldrei gleyma,“ segir Catherine Russell í ákalli UNICEF. „Leiðtogar heimsins sem koma nú saman í Þýskalandi fyrir fund G7-ríkjanna hafa örlítinn glugga með tækifæri til að grípa til aðgerða og bjarga lífi barna. Það má engan tíma missa. Að bíða eftir því að hungursneyð sé lýst yfir, þýðir að verið sé að bíða eftir því að börn deyi.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn