08. júní 2023

UNICEF: Hundruð munaðarlausra barna flutt í öruggt skjól í Súdan

UNICEF aðstoðaði við að setja upp örugga flutningamiðstöð til að taka við börnunum og veitir þeim nauðsynlega umönnun og aðhlynningu

297 börn hafa verið flutt frá Mygoma munaðarleysingjaheimilinu í Khartoum í Súdan í öruggt skjól frá harðvítugum átökum á svæðinu. Mandeep O'Brien, fulltrúi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Súdan segir hina vel heppnuðu flutninga ljós í myrkri fyrir hinn viðkvæma hóp barna sem á heimilinu bjó við hættulegar aðstæður.

 „Milljónir barna eru enn í bráðri hættu víðs vegar um Súdan og hin hörðu átök, miklu fólksflutningar og skortur á aðgengi að mannúðaraðstoð ógna lífi þeirra á hverjum degi,“ segir O'Bien.

Börnin á Mygoma-heimilinu eru á framfæri félags- og heilbrigðismálayfirvalda í Súdan með stuðningi UNICEF. Barnahjálpin aðstoðaði við að setja upp örugga flutningamiðstöð til að taka við börnunum og veitir þeim nauðsynlega umönnun og aðhlynningu auk þess að styðja við umönnunaraðila barnanna. Vinna er þar að auki hafin, í samstarfi við viðkomandi yfirvöld, við að finna fósturfjölskyldur fyrir börnin. 

Síðan hin mannskæðu átök hófust í Súdan í apríl síðastliðnum eru 13,6 milljónir barna í neyð og þurfa á mannúðaraðstoð að halda. Þetta er mesti fjöldi barna í neyð í ríkinu frá upphafi. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir 838 milljónum dala til að takast á við þá miklu neyð í Súdan.

Þú getur styrkt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn