30. ágúst 2022

Hjálparhella til næstu þriggja ára

„Þriggja ára samstarf við BM Vallá skiptir miklu máli því við vitum að næstu ár verða erfið fyrir börn“

Birna og Þorsteinn frá undirritun samningsins.

BM Vallá og UNICEF á Íslandi hafa skrifað undir styrktarsamning til næstu þriggja ára. Samningurinn, er hluti af samfélagssjóð fyrirtækisins, Hjálparhella BM Vallá – sem styður við margvísleg samfélagsverkefni á hverju ári.

Á barmi hungursneyðar í kjölfar stríðsátaka

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum og verkefnin sjaldan eða aldrei verið stærri en um þessar mundir. Fjölmörg ríki Afríku, Suður-Asíu og Mið-Austurlanda ramba nú á barmi hungursneyðar sem má m.a. rekja til stríðsátakanna í Úkraínu, hækkandi matvælaverðs, hamfarahlýnunar og efnahagsþrenginga í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19. Velferð milljóna barna er undir og þörfin því brýn.

Viðskiptavinir leggja sitt af mörkum

Það er BM Vallá sönn ánægja að styðja við bakið á því ómetanlega starfi sem UNICEF á Íslandi sinnir í fjáröflun fyrir alþjóðleg verkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. En það væri ekki hægt nema fyrir tilstuðla allra þeirra fjölmörgu viðskiptavina BM Vallá, sem með viðskiptum sínum leggja sitt af mörkum til góðs málefnis, þar sem hlutfall af heildarveltu fer í samfélagssjóð fyrirtækisins.

Árangursríkt COVAX samstarf

Á síðasta ári veitti BM Vallá styrk í bóluefnadreifingu til UNICEF í efnaminni löndum heimsins, svokallað COVAX samstarf. Árangur hins alþjóðlega verkefnis lét ekki á sér standa og hafa í dag alls 1.42 milljarður skammta af bóluefnum við COVID-19 verið dreift til 145 landa og telst verkefninu formlega lokið.         

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins, móðurfélags BM Vallár:

„Við erum einstaklega ánægð með að leggja lið við það verðuga starf sem UNICEF sinnir í tengslum við neyðaraðstoð og réttindi barna í heiminum. Fyrirtæki verða að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og skorumst við ekki undan þeirri ábyrgð. Viðskiptavinir okkar hafa sýnt þessu verkefni mikinn áhuga og finnum við fyrir miklum stuðningi frá þeim um að leggja einnig sitt af mörkum, enda geta allir verið Hjálparhellur.“ 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:

„Heimsmyndin hefur breyst hratt á síðustu misserum með skelfilegum áhrifum á getu fjölskyldna til að sjá fyrir sér og sínum. Öll börn eiga rétt á næringarríkri fæðu, heilbrigðisþjónustu og öryggi og UNICEF stendur vaktina til að tryggja réttindi barna þrátt fyrir áskoranir, í Austur-Afríku og víðar. Þetta getum við gert fyrir tilstilli bakhjarla líkt og BM Vallá, sem vilja gefa af sér þar sem þörfin er mest. Þriggja ára samstarf við BM Vallá skiptir miklu máli því við vitum að næstu ár verða erfið fyrir börn.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn