12. apríl 2022

Hjálparhella BM Vallár styður við UNICEF

Hjálparhella BM Vallár var lögð niður í gangstétt við UNICEF á Laugavegi í dag. Styrktarsamningur framlengdur til næstu þriggja ára.

Þorsteinn Víglundsson og Birna Þórarinsdóttir með Hjálparhelluna á Laugavegi í dag.

BM Vallá hefur ákveðið að framlengja styrktarsamning við UNICEF á Íslandi til næstu þriggja ára. Styrktarsamningurinn er hluti af samfélagssjóð fyrirtækisins, Hjálparhella BM Vallá, sem styður við margvísleg samfélagsverkefni á hverju ári. Af þessu tilefni var ákveðið að leggja niður sérsteypta hjálparhellu við húsnæði UNICEF á Íslandi að Laugavegi 77. Hjálparhellan mun því prýða gangstéttina og vera minnisvarði um það mikilvæga starf sem unnið er að í tengslum við hjálparstarf í heiminum.

Það voru þau Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, sem lögðu hjálparhelluna niður þriðjudaginn 12. apríl. Í kjölfarið skrifuðu þau undir viljayfirlýsingu um áframhaldandi samstarf til næstu þriggja ára.

„Það er ótrúlega dýrmætt að leggja hornstein að samstarfi til þriggja ára með BM Vallá, á grunni okkar góða samstarfs í þágu COVAX í fyrra. Áskoranir UNICEF eru sífellt að stækka sökum átaka, hamfarahlýnunar og heimsfaraldurs. Samstarf UNICEF og BM Vallár mun efla getu samfélaga til að bregðast við áhrifum loftslagsmála; draga þannig úr neyð og bæta heiminn til lengri tíma. Ekki veitir af,“ segir Birna Þórarinsdóttir hjá UNICEF.

Birna Þórarinsdóttir og Þorsteinn Víglundsson við undirritun viljayfirlýsingar um áframhaldandi samstarf til næstu þriggja ára.
Samstarf í tengslum við bóluefnadreifingu

Á síðasta ári veitti BM Vallá styrk í bóluefnadreifingu í efnaminni löndum heimsins, svokallað COVAX samstarf. Árangurinn lét ekki á sér standa og hafa í dag 1.42 milljarður skammta af bóluefnum verið dreift til 145 landa. Viðskiptavinir BM Vallár lögðu sitt af mörkum með kaupum á hellum hjá fyrirtækinu en fyrir hverja 10 fermetra var tryggt að bóluefni yrði dreift til eins einstaklings.

UNICEF er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum og er með starfsemi í 190 löndum. Ákveðið hefur verið að tengja styrktarsamninginn við heimsmarkmið 13, aðgerðir í loftslagsmálum, en þær áherslur tengjast stefnumörkun BM Vallár og þeim viðfangsefnum sem unnið er markvisst að varðandi kolefnishlutlausa steinsteypu fyrir 2030.
„Það er okkur mikill heiður að fá að styðja við það ómetanlega starf sem UNICEF sinnir í þágu barna um heim allan. Við erum stolt að fá að leggja samtökunum lið á næstu árum með þessum samningi,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins.

Hjálparhellan sem nú prýðir gangstéttina við Laugaveg 77.
Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn