21. ágúst 2023

Hjálpargögn komast ekki inn í Níger: Ógn við velferð milljóna barna

UNICEF kallar eftir öruggu aðgengi fyrir mannúðarstofnanir og hjálpargögn í kjölfar valdaráns í Níger í síðasta mánuði.

Fulltrúi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir ástandið í Níger í kjölfar valdaráns þar í landi í síðasta mánuði ógna velferð og réttindum rúmlega tveggja milljóna barna sem þurfi nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda. Hjálpargögn séu nú strand við landamæri Níger og kallar UNICEF eftir því að málsaðilar tryggi öruggt aðgengi fyrir mannúðaraðstoð og starfsfólk svo hægt sé að bregðast við neyðarástandi barna. 

„UNICEF heldur áfram að dreifa nauðsynlegri mannúðaraðstoð til barna og í síðasta mánuði komum við næringarríku jarðhnetumauki til 1.300 heilsugæslumiðstöðva, eða sem nemur meðhöndlun vannæringar fyrir ríflega 100 þúsund börn á næstu mánuðum. Þetta er hins vegar ekki nóg,“ segir Stefano Savi, fulltrúi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Níger. 

Savi segir að meira þurfi að gera þar sem skortur á rafmagni undanfarið sé skaðlegur fyrir þá innviði sem reiði sig á það, svo sem heilbrigðisstofnanir og 95% köldu keðjunnar svokölluðu sem tryggir örugga dreifingu lyfja og bóluefna víðs vegar um landið. 

„Við höfum miklar áhyggjur af því að nauðsynlegar hjálpargagnasendingar strandi nú við landamæri Níger. Eins og staðan er núna er UNICEF með tvo gáma fasta við landamæri Benín, 19 gáma í höfninni Cotonou og 29 gáma á leiðinni sjóleiðis með næringar- og sjúkragögnum,“ segir Savi og bendir á að nauðsynlegt sé að engar frekari tafir verði á þessum sendingum ef þær eigi að skila tilætluðum árangri í þágu barna í Níger, sem UNICEF þjónar fyrst og fremst. 

 „UNICEF kallar eftir því að allir málsaðilar þessarar krísu í landinu tryggi öruggt aðgengi mannúðarstofnana og hjálpargagna svo hægt sé að ná til barna í viðkvæmri stöðu og fjölskyldna þeirra. Við köllum einnig eftir því að framlög til mannúðarmála verði varin áhrifum viðskiptabanns sem í gildi er.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn