12. febrúar 2021

Sameinuðu þjóðirnar: Helmingur barna í Jemen verður vannærður í ár

Nærri 2,3 milljónir jemenskra barna undir fimm ára aldri munu glíma við bráðavannæringu á árinu 2021. Þar af má búast við að 400 þúsund þeirra muni fá alvarlega bráðavannæringu sem getur dregið þau til dauða án nauðsynlegrar meðhöndlunar.

12. febrúar 2021 Nærri 2,3 milljónir jemenskra barna undir fimm ára aldri munu glíma við bráðavannæringu á árinu 2021. Þar af má búast við að 400 þúsund þeirra muni fá alvarlega bráðavannæringu sem getur dregið þau til dauða án nauðsynlegrar meðhöndlunar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), UNICEF, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Skýrslan, Integrated Food Security Phase Classification (IPC) Acute Malnutrition, var birt í dag en þar segir að bráðavannæring muni aukast um 16 prósent í ár frá því í fyrra og alvarleg bráðavannæring barna undir fimm ára um 22 prósent.

Stofnanirnar vara einnig við því að þetta er hæsta hlutfall alvarlegrar bráðavannæringar barna sem skráð hefur verið síðan átökin í Jemen hófust árið 2015.

Vannæring dregur verulega á líkamlegum og andlegum þroska barna á fyrstu tveimur árum ævi þeirra og getur leitt af sér bæði heilsutengd og félagsleg vandamál sem fylgt geta börnum út lífið.

Það að takast á við vannæringu og koma í veg fyrir hana hjá börnum byrjar hjá heilsu móðurinnar. Því lýsa stofnanirnar yfir miklum áhyggjum af því að á árinu horfum við fram á að 1,2 milljónir óléttra kvenna og kvenna með barn á brjósti í Jemen muni glíma við vannæringu á árinu

Áralöng stríðsátök og efnahagsþrengingar, heimsfaraldur COVID-19 og minnkandi fjárframlög til alþjóðlegra mannúðarstofnana hafa komið verulega illa við jaðarsett samfélög í Jemen þar sem ástandið var í járnum.

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF:

„Það að svöngum börnum í Jemen fjölgi enn ætti að vekja okkur öll til aðgerða. Fleiri börn munu deyja að óþörfu á hverjum degi sem líður án þess að við bregðumst við. Mannúðarstofnanir þurfa nauðsynlega, og nú þegar, aukinn stuðning og óhindraðan aðgang að þessum samfélögum til að geta bjargað lífi þessara barna.“

QU Dongyu, framkvæmdastjóri FAO:

„Fjölskyldur í Jemen hafa lifað í heljargreipum stríðsátaka of lengi og auknar áskoranir og ógnanir á borð við COVID-19 hafa lítið gert annað en að auka þeirra neyð. Án öryggis og stöðugleika í landinu, og aukinnar aðstoðar við bændur til að rækta jarðir sínar og næringarríka fæðu munu börnin í Jemen og fjölskyldur þeirra halda áfram að sökkva dýpra í fen hungurs og vannæringar.“

David Beasley, framkvæmdastjóri WFP:

„Þessar niðurstöður eru enn eitt neyðarkallið frá Jemen þar sem hvert vannært barn táknar fjölskyldu sem berst í bökkum við að halda lífi. Neyðarástandið í Jemen er eitruð blanda stríðs, efnahagshruns og fjárskorts til að veita þeim sem verst standa nauðsynlega lífsbjörg. En það er til lausn við hungri, það er fæða og næring og að binda enda á ofbeldið. Ef við bregðumst við NÚNA, þá er enn tími til að binda enda á þjáningar jemenskra barna.“

Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO:

„Vannærð börn eru móttækilegri fyrir hvers kyns sjúkdómum, eins og niðurgangi, öndunarfærasýkingum og malaríu, sem er mikið áhyggjuefni í Jemen, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er vítahringur sem getur haft banvænar afleiðingar, en lausnin er tiltölulega einföld og ódýr. Bjarga má mörgum lífum.“

Neyðarákall til styrktaraðila - þú getur hjálpað

Bráðavannæring meðal ungra barna hefur aukist ár frá ári síðan átökin hófust þar í landi og þá sérstaklega í fyrra þar sem veruleg aukning varð á hinum ýmsu sjúkdómum og fylgikvillum þessu tengt.

Í dag er Jemen einn hættulegasti staður á jörðinni til að vera barn. Tíðni smitsjúkdóma er hátt, takmarkað aðgengi er að bólusetningum, heilbrigðisþjónustu fyrir börn og fjölskyldur sem og hreinlætisaðstöðu og hreinu vatni. Stofnanirnar kalla til eftir aðstoð.

Íslendingar hafa frá upphafi staðið þétt við bakið á börnum í Jemen í gegnum UNICEF á Íslandi. Þú getur alltaf haft áhrif og lagt þitt að mörkum og minnum við sem fyrr á neyðarsöfnun okkar. Allar helstu upplýsingar finnur þú hér.

Tryggðu börnum í Jemen fæðu og öryggi á árinu 2021. Þau þurfa þína hjálp.

Sendu SMS-ið JEMEN í númerið 1900 og gefðu þannig 1900 krónur. Sú upphæð samsvarar rúmlega tveggja vikna meðferð við vannæringu fyrir eitt barn. Einnig er hægt að styrkja söfnunin um upphæð að eigin vali hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn