02. apríl 2022

Heimsins mikilvægasta kvöld í kvöld! Þessu áttu von á

Í beinni útsendingu á RÚV klukkan 19:45

Það er stór dagur fyrir UNICEF á Íslandi í dag þegar Heimsins mikilvægasta kvöld fer í loftið í beinni útsendingu á RÚV klukkan 19:45. Þetta verður glæsilegur söfnunar- og skemmtiþáttur sem verður í senn fræðandi, skemmtilegur en með alvarlegum undirtón. Í þættinum koma hátt í 100 leikarar, dansarar, grínistar og tónlistar saman í að vekja gleði, skapa von og skapa ógleymanlega kvöldstund fyrir alla fjölskylduna.

Skemmtun sem skiptir máli 

Í þættinum verður fjallað um stríðið í Úkraínu og neyðaraðgerðir UNICEF á svæðinu. Eins verður sýnt frá margvíslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar á líf barna, meðal annars í Malaví, Síerra Leóne, Indónesíu, Bangladess, Sýrlandi og Jemen. Markmið þáttarins er að fjölga enn í hópi HEIMSFORELDRA Á ÍSLANDI sem styðja starf UNICEF með mánaðarlegum framlögum.  

Auk hjartnæmra innslaga frá UNICEF á vettvangi verður þátturinn sneisafullur af skemmtiatriðum frá þjóðþekktu listafólki. Enginn ætti að missa af upphafsatriði þáttarins þar sem stjörnulið tónlistarfólks flytur endurgerð á Disco Frisco. Þá ber að nefna stjörnuprýdda grínsketsa Kanarí-hópsins, þar sem meðal annars Annie Mist, Jón Gnarr, Steindi jr. og Bassi Maraj eiga stórleik.

Tónlistaratriði þáttarins verða sérlega glæsileg. En þar koma fram Lay Low og Edgar Smári, Prins Póló, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson. Sérstakur gestur verður svo úkraínska söngkonan Jamala, mun flytja lag sitt „1944“ sem sigraði Eurovision árið 2016. Svo fátt eitt sé nefnt.

Kynnar kvöldsins eru Einar Örn Jónsson og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir sem munu stýra kvöldinu úr myndveri RÚV og Björg Magnúsdóttir og Guðmundur Pálsson sem munu standa vaktina í símaveri Vodafone þar sem mikið verður um óvæntar uppákomur. Dagskárgerð er í höndum Þórs Freyssonar.  

Stuðningur heimsins bestu foreldra hefur aldrei verið mikilvægari

Mánaðarleg framlög Heimsforeldra tryggja getu UNICEF til að vera til staðar þar sem neyðin er og sveigjanleika til að bregðast skjótt við þegar skálmöld skellur á, rétt eins og kom á daginn í Úkraínu fyrir mánuði síðan.   

Í átakinu Heimsins bestu foreldrar sem hófst í síðustu viku munu framlög nýrra Heimsforeldra næstu þrjá mánuði renna beint til neyðarstarfs UNICEF vegna Úkraínu. Sem Heimsforeldri hjálpar þú UNICEF t.d. að: 

  • Vera til staðar fyrir börn og fjölskyldur á flótta frá Úkraínu og flytja hjálpargögn, sjúkragögn, lyf og nauðsynjar á vettvang átakanna. 
  • Tryggja réttindi og velferð barna sem orðið hafa verst úti vegna heimsfaraldurs COVID-19 um allan heim. 
  • Tryggja vannærðum börnum í Jemen og um allan heim lífsbjörg. 
  • Aðstoða barnungar stúlkur að losa sig úr viðjum barnahjónabanda. 
  • Vernda börn um allan heim fyrir ánauð barnaþrælkunar, hermennsku og hvers kyns ofbeldi. 
  • Tryggja börnum um allan heim aðgengi að hreinu vatni, nauðsynlegum bólusetningum, lyfjum, heilbrigðisþjónustu og næringu. 

Ísland á heimsmet í fjölda Heimsforeldra (miðað við höfðatölu) og minnum við því þann mikla fjölda núverandi Heimsforeldra einnig á að alltaf er hægt að hafa samband við skrifstofu UNICEF á Íslandi og hækka framlag sitt.  
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er með starfsemi í yfir 190 löndum og er á vettvangi margra stríða. Í öllum þessum verkefnum, nær og fjær, skiptir hvert framlag máli. KOMDU Í HÓP HEIMSINS BESTU FORELDRA Í DAG.  

Heimsins mikilvægasta kvöld er þáttur sem enginn má missa af. UNICEF á Íslandi þakkar öllum þeim fjölmörgu sem gáfu vinnu sína og lögðu samtökunum lið til að láta hann verða að veruleika. Styrktaraðilar átaksins eru Vodafone, Lindex, og Kvika banki. Einnig fær UNICEF á Íslandi styrk frá Utanríkisráðuneytinu til að halda úti öflugu kynningar- og fræðslustarfi sem er hluti af þættinum.  Auglýsingastofan TVIST vann markaðsátak herferðarinnar og útlit þáttarins. 

Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndarinn Baldur Kristjánsson.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn