Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegur dagur réttinda barna. Sá dagur er verðugur tímapunktur til að staldra við í önnum dagsins, íhuga hvað við gerum í þágu barna og setja í samhengi. Með stuðningi Heimsforeldra UNICEF, samstarfsfyrirtækja okkar, stjórnvalda og þeirra óteljandi einstaklinga sem styðja neyðarsafnanir UNICEF fyrir börn í Jemen, Sýrlandi og Afganistan og gefa Sannar gjafir UNICEF tryggjum við saman börnum í heimsins sárustu stöðu næringu, heilsuvernd, menntun og félagslegan stuðning – og þar með, vonandi, tækifæri til lífs, þroska og virkrar þátttöku í samfélagi sínu. Hér innanlands beitir UNICEF sér fyrir aukinni fræðslu og vitund um réttindi barna til að tryggja að börn og ungmenni fái rödd sem hlustað er á þegar ákvarðanir eru teknar sem varða þau. Sem eru líklega flestar ákvarðanir.
Umræðan um loftslagsmál og virk þátttaka barna og ungmenna í henni hefur rammað skýrt inn þá staðreynd að við sem eru fullorðin erum einungis tímabundnir handhafar heimsins og ábyrgðin á framtíðinni hvílir jafnt í okkar höndum og þeirra sem taka við henni. Raddir barna hafa sjaldan skipt meira máli og það er okkar daglega verkefni að tryggja að þau hafi tækifæri til að þroska þá rödd og beita og að á hana sé hlustað.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri íslenskrar landsnefndar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna