06. október 2023

Hamfarir vegna veðurs hrakið 43 milljónir barna á flótta síðustu sex ár

Rannsóknir sýna að árflóð ein og sér geta leitt til flótta 96 milljóna barna á næstu 30 árum 

Hamfarir vegna aukinna veðuröfga á borð við flóða, storma, þurrka og gróðurelda hafa gert það að verkum að 43 milljónir barna í 44 löndum neyddust til að flýja heimili sín á sex ára tímabili. Það jafngildir um 20 þúsund börnum hvern dag. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. 

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru meðal stærstu áskorana samtímans en börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum og afleiðingum aukinna veðuröfga. Í umræddri skýrslu kemur meðal annars fram að Kína og Filippseyjar eru meðal þeirra landa þar sem flest börn flýja vegna aftakaveðurs, börn í Dóminíku og Vanuatu flýja helst vegna storma, og börn í Sómalíu og Suður-Súdan helst vegna flóða.  

Skýrslan, „Children Displaced in a Changing Climate,“ skoðar ástæður fyrir flótta barna víðsvegar um heiminn á árunum 2016 til 2021 og er sú fyrsta sinnar tegundar. Skýrslan skoðar einnig flóttaspár fyrir næstu 30 árin en rannsóknir sýna að árflóð ein og sér geta leitt til flótta 96 milljóna barna á því tímabili. Einnig kemur fram að börn á flótta séu í sérstakri hættu þar sem þau eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir ofbeldi, átökum og fátækt. Rannsóknir sýna að hvifilvindar geti leitt til flótta 10,3 milljóna barna og óveður til flótta 7,2 milljóna barna. Með tíðari og alvarlegri veðurofsum sem eiga sér stað í kjölfar breytts loftslags þá er líklegt að raunverulegar tölur verði enn hærri.   

Auknir veðurofsar gera börn enn viðkvæmari  

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, segir flótta hafa djúpstæð áhrif á börn og ungmenni og að afleiðingarnar geti verið skelfilegar. Hún segir að börn óttist um líf sitt, hvort þau geti snúið aftur til síns heima, eða byrjað aftur í skóla. „Eftir því sem áhrif loftslagsbreytinga aukast mun flótti fólks og barna einnig færast í aukana. Þekkingin og hæfnin til að bregðast við er til staðar hjá alþjóðasamfélaginu en við erum að bregðast of hægt við. Við þurfum að setja stóraukinn kraft í að undirbúa samfélög fyrir komandi loftslagshamfarir, vernda börn sem eiga í hættu á því að þurfa að flýja og styðja þau sem nú þegar hafa neyðst til þess að yfirgefa heimili sín,“ segir Russell.  

Á árunum 2016 til 2021 má rekja flótta tæplega 41 milljóna barna til veðurofsa svo sem flóða og storma. Á sama tíma leiddu þurrkar til flótta yfir 1,3 milljóna barna innanlands og skógareldar til flótta 810 þúsund barna, þá helst í Kanada, Ísrael og Bandaríkjunum.  

Haítí og Mósambík viðkvæm vegna veðurhamfara  

Haítí og Mósambík eru dæmi um lönd sem nú þegar eru í mikilli hættu fyrir brottflutningi barna vegna veðurhamfara. Þar sem bæði löndin eru fátæk er því líklegt að börn þessa landa eigi í hættu á flótta í framtíðinni ef ekki verður brugðist við. Nauðsynlegt er að draga úr áhættu og efla aðlögun, viðbúnað og fjármögnun.  

UNICEF hvetur stjórnvöld, samstarfsaðila og einkageirann til þess að grípa til aðgerða  

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur með stjórnvöldum í löndum sem eru í mestri hættu og aðstoðar þau við að takast á við breyttan veruleika í loftslagsmálum með því að innleiða leiðir til að lágmarka hættuna í kjölfar veðurhamfara, og með því að innleiða aðlögunaráætlanir sérstaklega fyrir börn til þess að tryggja sveigjanlega og hraða aðstoð þegar hamfaraveður bresta á.  

Þar sem COP28 loftslagsráðstefnan er framundan í Dubai í nóvember þá hvetur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, stjórnvöld, samstarfsaðila, þróunarsamvinnuaðila og einkageirann til þess að grípa til aðgerða til þess að vernda börn og ungmenni sem eru í sérstakri hættu á flótta í kjölfar veðurofsa.  

Meðal ráðlegginga UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, er að vernda börn og ungmenni með því að tryggja að lífsnauðsynleg þjónusta, svo sem menntun, heilsugæsla, næring, félagsleg vernd og barnaverndarþjónusta, sé til staðar í samfélögum þeirra. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hvetur einnig til þess að lögð sé áhersla á að undirbúa börn og ungmenni til þess að lifa með og í breyttu loftslagi og í breyttum heimi í kjölfar loftslagsáhrifa. Að lokum óskar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, eftir því að börn og ungmenni séu höfð í forgangi í loftslagsaðgerðum og mannúðaraðstoð vegna loftslagsbreytinga.   

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn