03. nóvember 2022

Hamfaraflóð í Pakistan: Tvær milljónir barna án skóla

Robert Jenkins heimsækir skóla sem UNICEF hefur komið upp í Sindh-héraði Pakistan.

Tvær milljónir barna í Pakistan eru að verða af réttindum sínum til menntunar eftir að verstu flóð í sögu landsins eyðilögðu og skemmdu nærri 27 þúsund skóla þar í landi. Nær tveir mánuðir eru síðan milljónir Pakistana misstu heimili sín, lífsviðurværi og öryggi. Áframhaldandi skortur á aðgengi barna að menntun og skóla eftir hamfarirnar er UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna mikið áhyggjuefni.

„Eftir að hafa upplifað eitt lengsta tímabil án skóla í veröldinni vegna heimsfaraldursins þá bíður þessara barna áframhaldandi óvissa sem ógnar framtíð þeirra,“ segir Robert Jenkins, alþjóðlegur yfirmaður menntamála hjá UNICEF, eftir að hafa heimsótt flóðasvæði Pakistan í vikunni.

Í hættu því lengur sem skólar eru lokaðir

Hamfaraflóðin í Pakistan lögðu undir sig stóran hlut landsins og á þeim svæðum sem verst urðu úti sést enn rétt svo í húsþök skólabygginga, tveimur mánuðum síðar. Því lengur sem skólar eru lokaðir því meiri hætta er á börn eigi ekki afturkvæmt á skólabekk sem aftur eykur hættuna á þau endi í barnaþrælkun, barnahjónaböndum eða sem þolendur annars konar misnotkunar og ofbeldis.

Skólar gegna nefnilega mikilvægu hlutverki í að opna aðgengi barna að heilbrigðisþjónustu, félagslegum- og sálrænum stuðningi og bólusetningum, svo fátt eitt sé nefnt.

Til að bæta gráu ofan á svart þá voru þau svæði sem verst urðu úti vegna flóðanna viðkvæm samfélög fyrir. Einn af hverjum þremur drengjum og stúlkum voru ekki í skóla fyrir hamfarirnar og helmingur barna glímdi við vaxtar- og þroskaskerðingar sökum vannæringar. UNICEF lýsir áhyggjum sínum yfir því að núverandi ástand geti aukið þá neyð.

UNICEF opnað 500 tímabundin skólasvæði

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur komið upp rúmlega 500 tímabundnum skólasvæðum á verst settu svæðunum og veitt nemendum og kennurum stuðning með skólagögnum. Að auki er UNICEF að þjálfa kennara til að geta veitt sálfélagslega aðstoð og heilsueftirlit og styðja þannig við andlega og líkamlega heilsu barna.

„Fyrir mörg börn sem aldrei höfðu haft aðgengi að skóla eru þessi tímabundnu kennslusvæði þeirra fyrsta reynsla af námi. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að þau haldi áfram að mennta sig þegar þú snúa aftur heim,“ segir Jenkins.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn