05. desember 2024

Gleðisprengja úr söngleiknum Hairspray sett í nýjan búning 

Bjössi, Diljá, Örn Árna og Ungleikhúsið í aðalhlutverki í opnunaratriði Búðu til pláss – Fylgstu með frá fyrstu mínútu 

Diljá Pétursdóttir, Örn Árnason og Ungleikhúsið á æfingu fyrir opnunaratriðið mikla. Mynd/Laufey Björk Ólafsdóttir

Opnunaratriði söfnunarþáttar UNICEF á Íslandi Búðu til pláss, verður engu líkt. Einn ástsælasti leikari landsins, Örn Árnason, opnar þáttinn sem sýndur verður í beinni útsendingu á RÚV, Stöð 2 og Sjónvarpi Símans í kvöld kl. 19:40. Þá munu þau Björn Stefánsson og Diljá Pétursdóttir leiða saman hesta sína í fyrsta sinn í splunkunýju söngatriði, ásamt hópi barna og ungs fólks frá Ungleikhúsinu.  

Lagið sem Björn og Diljá frumflytja í nýjum búningi er sannkölluð gleðisprengja úr söngleiknum Hairspray og heitir á frummálinu „Nicest Kids in Town“ en hefur verið snarað í nýjan búning undir nafninu „Réttu hjálparhönd.“ 

Sigyn Blöndal leikstýrir atriðinu og dans er í umsjá Elmu Rúnar Kristinsdóttur sem unnið hefur til fjölda verðlauna sem danshöfundur. Guðmundur Kristinn Jónsson tónlistarmaður og upptökustjóri sá um upptökur á laginu. Þær Helga Rún Pálsdóttir og Sara Hjördís Blöndal eiga heiðurinn af glæsilegum búningum. Allir listamennirnir styrktu UNICEF með vinnu sinni. 

Búðu til pláss fyrir öll börn 

Búðu til pláss er söfnunar- og skemmtiþáttur á vegum UNICEF á Íslandi í samstarfi við RÚV, Stöð 2, Sjónvarpi Símans, Sýn og Kviku banka. Tilefnið er að 20 ára afmæli landsnefndar UNICEF á Íslandi og Heimsforeldra.   

Í þættinum verður boðið upp á úrval skemmtiatriða, grín, dans og tónlist þar sem landsþekktir einstaklingar og velunnarar UNICEF leggja sitt af mörkum í þágu málstaðarins.  

En meginmarkmið kvöldsins er að fjölga í hópi Heimsforeldra UNICEF, mánaðarlegra styrktaraðila Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Við munum leggja áherslu á von og árangur í fjölkrísuheimi og veita áhorfendum innsýn inn í störf og verkefni UNICEF um allan heim. Sérstök áhersla verður áhrif stríðsins á Gaza á börn og hvernig þú getur sem heimsforeldri búið til pláss og lagt þitt af mörkum.   

Þátturinn byrjar af krafti svo mikilvægt er að fylgjast með frá fyrstu mínútu! 

Búðu til pláss í hjartanu þínu og skráðu þig sem Heimsforeldri UNICEF í dag.  

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn