10. ágúst 2023

Glæpahópar ræna konum og börnum á Haítí

Mannrán stóraukist á árinu og tilfelli þegar orðinn þrefalt fleiri en allt árið 2021

Börn á Haítí á leið í skólann. Það er ferðalag sem getur reynst mörgum börnum varhugavert á viðsjárverðum tímum. MYND/UNICEF

Áframhaldandi átök og ólga á Haítí ógnar lífi og velferð barna og kvenna þar sem aldrei fyrr. Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, hefur orðið sprenging í mannránum þar undanfarin misseri. Nær 300 tilfelli eru staðfest á fyrstu sex mánuðum þessa árs sem jafngildir heildarfjölda alls síðasta árs og er þrefalt meira en allt árið 2021. 

Í flestum tilfellum eru börn og konur numin á brott af vopnuðum skæruhópum sem nýta sér manneskjurnar í fjárhagslegum eða taktískum tilgangi í stöðubaráttu við aðra glæpahópa.

Þolendur í þessum málum glíma við andlegar og líkamlegar afleiðingar lífsreynslunnar, oft um árabil.

 Ólýsanlegt ofbeldi

„Þær frásagnir sem við heyrum frá samstarfsfólki okkar í UNICEF og öðrum stofnunum á vettvangi eru sláandi og fullkomlega óásættanlegar,“ segir Gary Conille, svæðisstjóri UNICEF í Suður- og Mið-Ameríku og Karíbahafi. 

„Konur og börn eru ekki vörur til að selja eða nýta til kúgunar í samningagerð og ættu aldrei að þurfa að upplifa svo ólýsanlegt ofbeldi. Það er mikið áhyggjuefni hversu mikil aukning hefur orðið í þessum málum og er það ógn við bæði íbúa Haítí og þau sem hingað eru komin til að aðstoða,“ segir Conille. 

Ástandinu á Haítí er ekki hægt að lýsa öðruvísi en sem algjörum hörmungum. 5,2 milljónir einstaklinga, nær helmingur allra íbúa, þurfa á mannúðaraðstoð að halda, þar af nærri þrjár milljónir barna. Aukning í ofbeldisverkum, ránum, þjófnaði og öðrum glæpum er nær stjórnlaus og vegatálmar stríðandi fylkinga og glæpahópa torvelda mjög öllu hjálparstarfi og ógna velferð starfsfólks. 

UNICEF til staðar fyrir börn og íbúa Haítí

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, krefst þess að öll þau sem numin hafa verið á brott verði látin laus og þeim tryggð örugg endurkoma til síns heima. UNICEF mun hvergi hvika í því verkefni sínu að tryggja börnum og íbúum Haítí nauðsynlega mannúðaraðstoð og stuðning á þessum erfiðu og myrku tímum þar sem náttúruhamfarir og ófriður hafa plagað íbúa um árabil. 

Auk þess að vera til staðar í þeim krísum sem dunið hafa á Haítí gegnir UNICEF sömuleiðis mikilvægu hlutverki í að styðja börn og þolendur áðurnefndra ofbeldisglæpa og mannrána. Ásamt samstarfsaðilum tryggjum við lífsnauðsynlega aðstoð, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sálrænni aðstoð og öruggum barnvænum svæðum þar sem börn geta hafið vegferð sína að bata.

Þegar þú ert Heimsforeldri styður þú við mannúðaraðstoð UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á Haítí og yfir 190 öðrum ríkjum um allan heim. Smelltu hér til að skrá þig núna.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn