29. nóvember 2021

Gefðu Sanna gjöf um jólin: Þörfin aldrei meiri

Sannar gjafir UNICEF hafa síðustu 10 árin stimplað sig inn sem ómissandi liður í jólagjafaflóði fjölmargra Íslendinga. Á síðasta ári keypti fólk á Íslandi Sannar gjafir fyrir tæpar 33 milljónir króna og var vinsælasta gjöfin í fyrra 100 pakkar af jarðhnetumauki sem gerir kraftaverk í meðhöndlun vannæringar hjá börnum.

30. nóvember 2021 Sannar gjafir UNICEF hafa síðustu 10 árin stimplað sig inn sem ómissandi liður í jólagjafaflóði fjölmargra Íslendinga. Á síðasta ári keypti fólk á Íslandi Sannar gjafir fyrir tæpar 33 milljónir króna og var vinsælasta gjöfin í fyrra 100 pakkar af jarðhnetumauki sem gerir kraftaverk í meðhöndlun vannæringar hjá börnum. Alls tryggðu landsmenn börnum í neyð 137.200 slíka pakka á síðasta ári með þeirri gjöf. En í flestum tilfellum þarf vannært barn aðeins þrjá slíka á dag í nokkrar vikur til að hljóta fullan bata. Það voru því ansi mörg líf sem gjafirnar björguðu það árið.

Nú fer í hönd mikilvægasta tímabil ársins í sölu Sannra gjafa enda jólasalan í gegnum tíðina tryggt ótal nauðstöddum börnum um allan heim lífsnauðsynleg hjálpargögn. Tugir þúsunda barna hafa notið góðs af Sönnum gjöfum Íslendinga í gegnum tíðina og hafa þessar hentugu, umhverfisvænu og fallegu gjafir sem skipta svo miklu máli aldrei verið vinsælli. Þetta eru gjafir sem koma að miklu gagni fyrir þau börn og fjölskyldur sem njóta góðs af og munu ekki gleymast. Sannar gjafir endurspegla því að okkar mati hinn sanna anda jólanna.

Gjafir fyrir leynivini, jólasveina eða undir jólatréið

Á vef UNICEF, Sannargjafir.is, finnur þú úrval af gagnlegum hjálpargögnum sem þú getur keypt að gjöf fyrir fjölskyldu og vini og þannig tryggt dreifingu á t.d. næringu fyrir hungruð börn, lífsnauðsynlegum bóluefnum, hlýjum vetrarfatnaði, skjóli, námsgögnum og vatnshreinsitöflum svo fátt eitt sé nefnt.

Auk hinna mikilvægu hjálpargagna þá erum við með til sölu sérstök jólakort og gjafamerkimiða, hvort tveggja myndskreytt íslensku jólasveinunum af Brian Pilkington. Hvert kort og merkimiði er ígildi mismunandi hjálpargagna sem bjarga og bæta líf barna í neyð.

Möndlugrauturinn er víða ómissandi í jólahaldi Íslendinga og þú getur keypt Möndlugjöfina hjá okkur sem er ígildi tveggja hlýrra teppa, 50 skammta af næringarríku jarðhnetumauki og eins fótbolta.

Þegar vinnustaðurinn efnir til Leynivinaleiks í aðdraganda jólanna þá getur þú líka keypt Leynivinagjöf fyrir þinn vin. Íslensku jólasveinarnir hafa líka uppgötvað mikilvægi Sannra gjafa og hafa þær verið vinsælar í litla skó úti í glugga síðustu árin.

Á árinu tókum við í gagnið nýja og endurbætta heimasíðu Sannra gjafa þar sem þú getur skrifað persónulega kveðju til viðtakanda, hlaðið upp mynd að eigin vali til að skreyta gjafabréfið og ýmist valið að láta senda þér það útprentað í pósti eða fengið sent í tölvupósti.

Eftir hvert metsöluárið á fætur öðru vonast UNICEF á Íslandi til að sem flestir Íslendingar leggi börnum heimsins lið og geri árið 2021 að enn einu metárinu í Sönnum gjöfum.

Í vefverslun okkar á Sannargjafir.is getur þú skoðað allt vöruúrvalið og án nokkurs vafa fundið eitthvað handa þeim sem eiga allt, til stuðnings þeim sem á þurfa að halda. Vertu með í að láta gott af þér leiða um jólin og finndu Sanna gjöf sem skiptir máli.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn