31. október 2023

„Gazasvæðið er orðið að grafreit þúsunda barna“

„Frá því að stríðið á Gaza hófst, hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ítrekað mikilvægi vopnahlés, að gíslar verði látnir lausir, og að mannúðarstarfsfólk fái öruggt aðgengi að svæðinu. UNICEF hefur einnig biðlað til stríðandi fylkinga að binda enda á dráp barna,“ sagði James Elder, talsmaður UNICEF, á blaðamannafundi í Genf, í dag.

„Ótti okkar hefur orðið að veruleika þar sem þúsundir barna hafa látið lífið á aðeins tveimur vikum. Tölurnar eru skelfilegar, en upplýsingar okkar gefa til kynna að yfir 3.450 börn hafa verið drepin og hækkar tala látinna með hverjum deginum,“ sagði Elder.

„Gazasvæðið er orðið að grafreit þúsunda barna og lifandi helvíti fyrir alla,“ sagði Elder.

Vatnsvandinn gífurlegur

Elder ræddi einnig þannig gífurlega alvarlega vatnsvanda sem íbúar Gaza standa frammi fyrir. Meira en milljón barna á Gaza eru nú án hreins vatns þar sem vatnsframleiðslugeta á svæðinu er aðeins 5 prósent af venjulegri framleiðslu. Dauðsföll vegna ofþornunar eru því vaxandi ógn.

Elder sagði einnig frá aðstæðum Nesma, stafsmanni UNICEF sem býr og starfar á svæðinu. Börn Nesma eru þau 4 ára Talia og 7 ára gamli Zain en daglega biðja þau móður sína um hreint vatn, öruggt drykkjarvatn en ekki saltvatn sem getur leitt til veikinda. Nesma segir það átakanlegt að geta ekki veitt börnum sínum hreint vatn og öryggi.

Gífurlegt áfall fyrir komandi kynslóðir

„Og svo er það áfallið, þegar átökin munu stöðvast mun börn og samfélög þeirra þurfa að glíma við afleiðingar stríðsins á komandi áratugum. Nýjustu upplýsingar herma að meira en 800 þúsund börn á Gaza muni þurfa á sálfræði- og áfallaaðstoð í kjölfarið á þessum hörmungum,“ sagði Elder.

„Nesma, starfsmaður UNICEF, sagði okkur einnig frá því að dóttir hennar er farin að sýna skýr og alvarleg merki um áfallastreitu og ótta þar sem hún rífur úr sér hárið og klórar sér til blóðs á lærunum. Móðir hennar segist ráðalaus en hafi í raun ekki tíma til þess að hugsa um geðheilsu barna sinna, hún þurfi einfaldlega að halda þeim á lífi og þegar stríðinu ljúki, muni hún veita þeim þá sérfræðiaðstoð sem þörf er á,“ sagði Elder.

UNICEF ítrekar ákall um vopnahlé

„Fyrir hönd Talia og Zain, og hinna 1,1 milljón barnanna á Gaza sem lifa í martröð: Við þurfum tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum. Nauðsynlegt er að opna allar aðgangsstöðvar til Gaza svo hægt sé að veita óhindraðan og viðvarandi aðgang mannúðaraðstoðar, svo koma megi vatni, mat, sjúkragögnum og eldsneyti inn á svæðið“.

„Ef ekki er hægt að uppfylla þessar kröfur og koma á vopnahléi, veita vatn og lyf fyrir saklaus börn, þá sjáum við fram á enn meiri hrylling í lífi barna á Gaza,“ sagði Elder.  

TIL AÐ STYRKJA NEYÐARSÖFNUN FYRIR BÖRN Í GAZA: 

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur (Síminn, Hringdu, Nova).  

Frjáls framlög: 701-26-102015 Kennitala: 481203-2950 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn