24. nóvember 2023

Ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna: „Gaza er orðið hættulegasti staður í heimi fyrir börn“

Catherine Russell, framvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuð þjóðanna, var ómyrk í máli í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í vikunni.

Þann 22. nóvember síðastliðinn flutti framkvæmdastýra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Catherine Russell ræðu á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um aðstæður og vernd barna á Gaza í kjölfar heimsóknar hennar á svæðið.

Í ræðunni lagði hún áherslu á að stöðva þurfi þjáningu barna á svæðinu tafarlaust og koma neyðaraðstoð örugglega til óbreyttra borgara í neyð, þá sérstaklega til barna. Russell sagði fyrsta áfangann í þessum efnum mikilvægan, það er,  tímabundnu fjögurra daga vopnahléi sem hefur verið samið um. UNICEF er með mikinn viðbúnað og reiðubúið að veita neyðaraðstoð þegar vopnahléið hefst en Russell ítrekaði þó þörfina á auknu fjármagni vegna síaukinnar neyðar barna og fjölskyldna á svæðinu.

Binda verður enda á stríðið

Russell sagði vopnahlé þó ekki vera nóg heldur verði að binda enda á stríðið þar sem sífellt fleiri börn láta lífið eða særast alvarlega. Hún vakti athygli fundargesta á þeirri miklu neyð sem blasir við á Gaza. Frá 7. október hafa 35 ísraelsk börn verið drepin á meðan meira en 30 eru í gíslingu á Gaza.

Þrátt fyrir að það standi til að sleppa einhverjum gíslum, þá aðallega konum og börnum, þá þarf mikið meira að gerast en UNICEF kallar eftir því að öllum börnum verði sleppt á öruggan hátt.

„Foreldrar barna í gíslingu lifa í angist á hverjum degi og óttast um líf og öryggi barna sinna,“ sagði Russell.

Versnandi öryggis- og mannúðaraðstæður á Vesturbakkanum

Staðgengill Russell heimsótti Vesturbakkann til að meta versnandi öryggis- og mannúðaraðstæður á svæðinu en síðustu sex vikurnar hafa 56 palestínsk börn verið myrt en fjöldi fólks hefur hrakist frá heimilum sínum. UNICEF áætlar að 450 þúsund börn á Vesturbakkanum þurfi á mannúðaraðstoð að halda. UNICEF og samstarfsaðilar veita 280 þúsund börnum á Vesturbakkanum geðheilbrigðisaðstoð og vernd ásamt vatns- og hreinlætisþjónustu og læknisaðstoð.

Heimsókn Russell á Gaza

Russell er sjálf nýkomin heim úr heimsókn til suðurhluta Gaza þar sem hún hitti starfsfólk UNICEF á vettvangi, börn og fjölskyldur. Hún sagði Nasser sjúkrahúsið sem hún heimsótti vera yfirfullt af fólki þar sem sjúkrahúsið veitir fólki á flótta einnig skjól.

„Á Nasser sjúkrahúsinu talaði ég við 16 ára stúlku sem lá í sjúkrarúminu sínu. Hún slasaðist illa þegar hverfi hennar var sprengt og læknar sögðu henni að hún myndi aldrei ganga aftur. Á nýburadeild spítalans sá ég pínulítil börn berjast fyrir lífi sínu í hitakassa en læknar höfðu áhyggjur af því hversu lengi vélarnar héldust gangandi vegna eldsneytisskorts,“ sagði Russell.

„Þegar ég var í Khan Yunis talaði ég við starfsmann UNICEF sem, þrátt fyrir að hafa misst 17 meðlimi stórfjölskyldu sinnar, vinnur áfram hetjulega að því að veita börnum og fjölskyldum á Gaza aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Sem fjögurra barna móðir er hún ein af óteljandi foreldrum á Gaza í stöðugum ótta um fjölskyldu sína,“ sagði Russell.

Meira en 5.300 palestínsk börn hafa verið drepin á aðeins 46 dögum

Russell greindi einnig frá því að yfir 5.300 palestínsk börn hafi verið drepin á aðeins 46 dögum sem gera 115 börn á dag. Börn mynda því 40 prósent dauðsfalla á Gaza sem er fordæmalaust. Meira en 1.200 börn eru einnig í sprengjurústum.

„Gaza er orðið hættulegasti staður í heimi fyrir börn,“ sagði Russell

„Líf barna sem munu lifa þetta af verður aldrei samt og áfallið fylgja þeim lengi.  Ofbeldið og það umrót sem þau hafa upplifað veldur skaðlegri streitu sem hamlað getur líkamlegum og vitsmunalegum þroska þeirra.  Jafnvel fyrir þessi átök sem nú standa þurfti rúmlega hálf milljón barna Gaza á geðheilbrigðis- og sálfélagslegum stuðningi að halda.

Börn á vergangi og versnandi lífsskilyrði

Rúmlega 1,7 milljónir manna á Gaza, þar af helmingur börn, er á vergangi og sagði Russell að UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefði sérstakar áhyggjur af þeim aukna fjölda. Börn hafa verið aðskilin fjölskyldum sínum og eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hún ítrekaði í ræðu sinni að það væri mikilvægt að bera kennsl á þau, veita tímabundna umönnun og efla verkefni við að sameina fjölskyldur.

„Auk sprengja, eldflauga og skotárása eru börn á Gaza í mikilli hættu vegna hörmulegra lífsskilyrða. Ein milljón barna – eða í raun öll börn innan yfirráðasvæðisins – lifa nú við mataróöryggi. Við gerum ráð fyrir því að á næstu mánuðum gætu enn fleiri börn látið lífið vegna vannæringar á Gaza,“ sagði Russell.  

Framleiðslugeta vatns hefur einnig farið minnkandi og reiða fjölskyldur sig á þrjá lítra eða minna af vatni á mann á dag til að drekka, elda og þrífa sig. Hreinsun vatns og skólps hefur einnig verið hætt vegna skorts á eldsneyti sem eykur margvíslega sjúkdómahættu.

„Þetta eru lífshættulegar aðstæður fyrir viðkvæma hópa eins og nýbura, börn og konur - sérstaklega þau sem eru vannærð fyrir. Við erum að sjá tilfelli af niðurgangi og öndunarfærasýkingum hjá börnum yngri en fimm ára. Við gerum ráð fyrir því að ástandið versni þegar tekur að kólna á næstu mánuðum,“ sagði Russell.

Árásir á skóla og sjúkrahús víðsvegar um Gaza og brot á réttindum barna

Árásir á sjúkrahús hafa átt sér stað á Gaza ásamt árásum á skóla en nærri 90 prósent allra skólabygginga hafa orðið fyrir skemmdum. Tæplega 80 prósent af skólum sem eftir eru, eru notaðir sem skjól fyrir fólk á flótta. Russell ítrekaði að UNICEF fordæmir allar árásir á skóla og segir aðstæður á Gaza brjóta gróflega á réttindum barna.

„Víðsvegar í Palestínu og Ísrael eru aðilar að deilunni að fremja gróf brot gegn börnum – þar á meðal morð, limlestingar, mannrán, árásir á skóla og sjúkrahús og að hefta mannúðarsamtökum aðgengi til að veita neyðaraðstoð. Áhrif ofbeldisins sem börn upplifa eru hörmulegar,“ sagði Russell.   

Gífurlegt mannfall starfsfólks Sameinuðu þjóðanna og áhyggjur yfir stigmögnun átakanna

Frá upphafi stríðsins hafa yfir 100 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna verið drepin og nýverið var kona, starfsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), drepin ásamt 6 mánaða gömlu barni sínu, eiginmanni hennar og bræðrum.

„Vopnahlé er einfaldlega ekki nóg heldur þarf að stöðva þetta blóðbað þegar í stað,“ sagði Russell.

„Við höfum áhyggjur af því að frekari stigmögnun hersins í suðurhluta Gaza muni valda hraðversnandi mannúðarástandi þar, auknum flótta og þvinga almenna borgara inn á enn minna svæði.

UNICEF mælir á móti því að komið verði á svokölluðum „öruggum svæðum“ þar sem enginn staður á Gaza er öruggur og slík svæði munu ekki ná að mæta þörfum þess gífurlega fjölda sem þarfnast aðstoðar,“ sagði Russell.

Ákall UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna ítrekar ákall sitt um tafarlaust vopnahlé og að stríðinu verði hætt í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Vernda þurfi börn og borgaralega innviði og sleppa strax þeim borgurum sem eru enn í gíslingu.

„Við skorum á aðila að virða og fylgja ályktun 2712 og veita öruggan og óheftan aðgang mannúðarsamtaka til og innan Gaza, þar á meðal í norðri. Aðilar verða að leyfa innkomu birgða á borð við eldsneytis, vatns, og matar. UNICEF skorar einnig á aðila að tryggja öruggt vatn fyrir íbúa Gaza,“ sagði Russell.  

Hinn raunverulegi kostnaður við þetta stríð er mældur í lífum barna, þeirra sem látist hafa og þeirra sem eiga sér ekkert líf eftir hörmungarnar. Eyðilegging Gaza og morð á almennum borgurum mun ekki koma á friði eða öryggi á svæðinu en íbúar Gaza eiga skilið frið og öryggi.

Setja þarf réttindi og velferð komandi kynslóða, ísraelskra og palestínskra barna, í forgang.

„Ég hvet aðila til að hlýða ákalli UNICEF, tryggja mannúðarvopnahlé sem fyrsta skref í átt að varanlegum friði. Og ég hvet ykkur, sem meðlimi Öryggisráðsins, til að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að binda enda á þessar hörmungar fyrir börn á Gaza,“ sagði Russell að lokum.

 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn