21. apríl 2021

Gagnvirkur eltingaleikur um götur Reykjavíkur kominn í loftið

Átakið heitir Veldu núna og hægt er að spila eltingaleikinn á www.veldununa.is

Nýtt gagnvirkt markaðsátak þar sem áhorfandinn sjálfur stjórnar æsispennandi eltingaleik um götur Reykjavíkur fór í loftið í dag. Átakið heitir Veldu núna og skartar leikurunum Anítu Briem og Snorra Engilbertssyni í aðalhlutverkum. Einnig má sjá Kristbjörgu Kjeld, Odd Júlíusson og leikarana í Kardimommubænum bregða fyrir ásamt fleiri þekktum andlitum.

Um er að ræða gagnvirka upplifun þar sem Aníta og Snorri þurfa hjálp frá áhorfandanum til að komast í burtu frá illmennum. Áhorfandinn velur flóttaleiðina þeirra með raddstýringu eða með smellum í gegnum snjalltæki. Hvað nákvæmlega gerist í sögunni og hvað sögupersónur gera næst er því undir hverjum og einum komið. Útfærslan er algjörlega einstök og á sér ekki hliðstæðu hérlendis svo óhætt er að segja að hér sé verið að brjóta blað í stafrænni markaðssetningu og tækniþróun. Hægt er að spila eltingarleikinn á íslensku, ensku og pólsku.

Verkefnið er unnið fyrir UNICEF á Íslandi og að því standa framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan, auglýsinga- og almannatengslastofan Ampere og vefstofan Jökulá auk þess sem forritun var í höndum Hreins Beck. Tónsmíðar voru í höndum Kjartans Hólm. Þeir Ævar Þór Benediktsson, sendiherra UNICEF á Íslandi, og Arnór Pálmi Arnarsson unnu handritið og leikstjórn var einnig í höndum Arnórs Pálma. Allir sem komu að verkefninu gáfu rausnarlegan afslátt af sinni vinnu.

Vodafone er aðalstyrktaraðili markaðsátaksins og kostar birtingar og markaðssetningu.

Auðvelt val að gerast Heimsforeldri UNICEF

Á hverjum degi tökum við ótal ákvarðanir. Margar þeirra hafa engin áhrif á líf okkar eða annarra, eins og þær ákvarðanir sem áhorfandinn tekur í að stjórna eltingaleiknum. Síðasta ákvörðunin í leiknum hefur þó raunveruleg áhrif, í raunheimum, en það er sú ákvörðun að gerast Heimsforeldri og hjálpa UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að berjast fyrir réttindum og velferð barna um allan heim.

Á Íslandi eru yfir 26 þúsund Heimsforeldrar sem styðja baráttu UNICEF í hverjum mánuði með frjálsum framlögum og gera UNICEF þannig kleift að vera til staðar fyrir börn í mjög ólíkum aðstæðum, bregðast hratt og örugglega við á svæðum þar sem neyð brýst út og berjast fyrir réttindum barna þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Með átakinu Veldu núna vill UNICEF bjóða fleiri landsmönnum að velja að ganga í hóp þessa hugsjónafólks og vekja um leið athygli á því hvernig Heimsforeldrar og UNICEF berjast saman fyrir betri heimi fyrir öll börn allan ársins hring. Þetta er ákvörðun sem skiptir raunverulegu máli og ætti að vera auðvelt val. 

Hjálpaðu Anítu og Snorra að flýja undan illmennunum hér.
Hægt er að skrá sig sem Heimsforeldri UNICEF hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn